Vísindasmiðjan hlýtur viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun

29.9.2019

Vísindasmiðjan hlaut viðurkenningu fyrir vísindamiðlun, sem afhent var við opnun Vísindavöku Rannís laugardaginn 28. september 2019. Jón Atli Benediktsson, rektor og Guðrún Bachmann kynningarstjóri vísindamiðlunar hjá Háskóla Íslands, veittu viðurkenningunni viðtöku.

  • Visindavaka-2019-4

Í Vísindasmiðjunni er vísindum miðlað til grunnskólanema og kennara þeirra með gagnvirkum og lifandi hætti. Þar eiga nemendur kost á að kynnast náttúruvísindum með uppgötvunum og virkri þátttöku, sem glæðir áhuga þeirra og skilning. Auk þess tekur Vísindasmiðjan á móti gestum á öllum aldri í margvíslegum viðburðum um allt land.

Á myndinni má sjá Jón Atla Benediktsson og Guðrúnu Bachmann, ásamt Ara Ólafssyni sem kom Vísindasmiðjunni upphaflega á fót, ásamt nokkrum hressum starfsmönnum Vísindasmiðjunnar. Lengst til hægri er Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís, sem afhenti Vísindasmiðjunni viðurkenninguna.

Markmið Vísindasmiðjunnar er að:

  • Vekja áhuga ungs fólks og almennings á vísindum og þekkingu.
  • Styðja við kennslu á öllum skólastigum í náttúru- og raunvísindum m.a. með námskeiðahaldi fyrir kennara.
  • Örva gagnrýna og skapandi hugsun.

Frá því Vísindasmiðjan opnaði, í mars 2012, hafa komið þangað um 25 þúsund skólabörn og er smiðjan opin skólahópum af öllu landinu, skólum og börnum að kostnaðarlausu. Núna tekur Vísindasmiðjan árlega á móti um 6.000 grunnskólanemum og um 250 kennurum.

Auk skólahópa tekur Vísindasmiðjan á móti gestum á öllum aldri á opnum viðburðum á menningar- og menntastofnunum og almannarýmum, svo sem Hörpu, Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og á bókasöfnum. Gestir á slíkum viðburðum eru nú um fjögur þúsund á ári og fer ört fjölgandi.

Þá eru ótaldir gestirnir í ferðum Háskólalestarinnar, en Vísindasmiðjan ferðast árlega með henni um land allt. Í ferðum lestarinnar býðst landsmönnum í dreifðum byggðum að kynnast vísindum með aðgengilegum hætti og jafnast þannig tækifæri og aðgangur landsmanna að þekkingu og fræðum.

Starfsmenn Vísindasmiðjunnar eru kennarar og nemendur HÍ og fá háskólanemar sem þar starfa einstaka þjálfun í vísindamiðlun meðfram sínu námi.

Nýlega braut Vísindasmiðjan blað í sögu barnamenningar á Íslandi þegar hún fékk veglegan styrk úr nýstofnuðum Barnamenningarsjóði Íslands vegna dagskrár í Hörpu veturinn 2019-2020. Þar mætast listir og vísindi á skapandi og lifandi máta og má segja að með þessum áfanga hafi vísindin verið viðurkennd sem hluti af menningu barna og nú geta börn á öllum aldri kynnst þeim af eigin raun í stærsta menningarhúsi landsins.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica