Íslenskir vísindamenn eru framúrskarandi
Rannís og Félag rannsóknastjóra á Íslandi buðu til hádegisverðarmálþings í tilefni af 10 ára afmæli Evrópska rannsóknaráðsins sl. föstudag á Grand Hótel Reykjavík.
Þar komu fram íslenskir vísindamenn sem hlotið hafa ERC styrki, en þeir eru aðeins veittir framúrskarandi vísindamönnum sem teljast í fremstu röð innan sinna fræðasviða í Evrópu. Á síðastliðnum tíu árum hafa sex ERC styrkþegar fengið Nóbelsverðlaun á sínu sviði.
ERC er hluti af Rannsóknaáætlun ESB – Horizon 2020 . Íslenskir aðilar hafa fengið rúmar 42 milljónir evra í styrki frá áætluninni á sviðum sem spanna allt frá heilbrigðisrannsóknum til orkurannsókna. Heildarstyrkveitingar ERC í núgildandi rannsóknaáætlun til íslenskra vísindamanna eru um 5,5 milljónir evra.
Íslensku styrkþegarnir eru:
- Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, sem hlaut 2 milljónir evra til rannsókna á erfðum heilsufars í kjölfar streituvaldandi atburða.
- Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, sem hlaut styrk upp á 1,5 milljón evra til rannsóknarverkefnisins Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum.
- Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, sem hlaut styrk upp á um 2 milljónir evra til að vinna að þverfaglegum rannsóknum um áhrif streitu á líðan barna og ungmenna.
Áður hafði Bernhard Pálsson, gestaprófessor við Háskóla Íslands, hlotið styrk upp á 2,4 milljónir evra til að setja upp rannsóknasetur í kerfislíffræði.
Auk íslensku styrkþeganna komu fram Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís, Michel Vanbiervliet, fulltrúi Evrópusambandsins, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Fundarstjóri var Ragnheiður H. Magnúsdóttir, formaður tækninefndar Vísinda- og tækniráðs og viðskiptastjóri hjá Marel.