Framtíð evrópsk samstarfs í mótun: Samráð Evrópusambandsins við almenning opið til 7. maí

14.2.2025

Nú stendur yfir undirbúningur næsta fjárhagstímabils Evrópusambandsins sem tekur við eftir 2027. Framkvæmdarstjórn Ursulu von der Leyen leggur áherslu á stefnumiðaða, einfaldaða og áhrifaríka nálgun og boðar til samtals við almenning um hvernig fjármununum sé best varið. 

Samtalið felur meðal annars í sér opið samráð um áætlanir á sviði menntunar, þjálfunar og samstöðu, sem stendur yfir til 7. maí næstkomandi. Samráðið gefur einstaklingum, stofnunum og samtökum gott tækifæri til að deila reynslu sinni af Erasmus+ og European Solidarity Corps og skoðun á því með hvaða hætti Evrópusambandið getur stuðlað að áframhaldandi samstarfi milli landa í þágu menntunar, æskulýðsmála og íþrótta í álfunni.

Þetta er síður en svo fyrsta skrefið í að móta evrópskt samstarf á vegum Evrópusambandsins eftir 2027, því nú þegar hafa stjórnvöld í öllum þátttökulöndum Erasmus+ og European Solidarity Corps unnið úttektir á framkvæmd og áhrifum áætlananna. Íslensku úttektina má finna á síðu Landskrifstofunnar um útgáfur og skýrslur.

Landskrifstofan hvetur öll þau sem vilja hafa áhrif á fjármögnun evrópsks samstarfs á sviði menntunar, æskulýðsmála og íþrótta að grípa tækifærið og láta skoðun sína í ljós.

Nánari upplýsingar









Þetta vefsvæði byggir á Eplica