Aukið fylgi almennings við listamannalaun
Meirihluti landsmanna er fylgjandi því að ríkið greiði listamönnum starfslaun og hefur stuðningur við launin farið úr 39% í 58% á undanförnum áratug. Það er niðurstaða könnunar sem MMR gerði fyrir Launasjóð listamanna í janúar sl. Fylgið hefur aldrei verið meira frá því afstaða fólks til listamannalauna var fyrst mæld, árið 2010.
Samkvæmt könnun MMR í janúar sl. eru 58% landsmanna fylgjandi listamannalaunum. Er þetta í fjórða skiptið sem MMR kannar hug almennings á listamannalaunum, en það var fyrst gert árið 2010, svo 2013, 2016, og nú 2020. Svarendur voru samtals 1018 sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Spurt var: “Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því að ríkið greiði listamannalaun?” Voru 58% fylgjandi en 42% andvíg. Þetta er viðsnúningur á fylgi frá árinu 2010, þegar 39% studdu listamannalaun en 61% voru á móti. Stuðningur hefur aukist jafnt og þétt á tíma könnunarinnar en hann var 46% árið 2013 og 53% árið 2016.
Sterk fylgni er milli menntunar og jákvæðrar afstöðu til listamannalauna. 44% svarenda með grunnskólapróf eru fylgjandi laununum, 54% þeirra sem lokið hafa framhaldsskólanámi og 73% þeirra sem lokið hafa háskólanámi.