Veðurstofan og Sævar Helgi hljóta viðurkenningu fyrir vísindamiðlun
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun föstudaginn 24. september 2021. Að þessu sinni hlutu tveir aðilar viðurkenninguna, Veðurstofa Íslands fyrir miðlun upplýsinga um hvers kyns náttúruvá og Sævar Helgi Bragason, sem hefur miðlað vísindum til almennings á fjölbreyttan hátt, með sérstakri áherslu á að ná til barna og ungmenna.
Miðlun vísinda á ábyrgan hátt hefur sjaldan verið mikilvægari en nú á tímum loftslagsbreytinga, heimsfaraldurs og annarra samfélagsáskorana. Öflug vísindamiðlun styrkir tengsl rannsókna og fræða við samfélagið og glæðir áhuga og skilning almennings á vísindum. Jafnframt eykur hún upplýsingalæsi og hvetur til gagnrýninnar hugsunar í þeim hafsjó upplýsinga sem á okkur dynur daglega. Viðurkenning Rannís fyrir vísindamiðlun er jafnan afhent á Vísindavöku, sem var ekki haldin með hefðbundnum hætti í ár vegna samkomutakmarkanna. Þess í stað er átakið nýtt til að vekja athygli á mikilvægi vísinda í samfélaginu með því að verðlauna þá sem þykja hafa staðið ötullega að miðlun vísinda til almennings um málefni er skipta máli í daglegu lífi.
Alltaf á vaktinni. Veðurstofa Íslands hefur vaktað náttúruöfl landsins í 100 ár. Auk þess að sinna mikilvægum almannavörnum hefur hún unnið leynt og ljóst að því að auka náttúrulæsi þjóðarinnar. Miðlun vísindaþekkingar spilar þar stórt hlutverk, hvort sem um er að ræða jarðskjálfta og eldgos, ofsaveður eða aðra náttúruvá og hefur starfsfólk Veðurstofunnar verið óþreytandi við að miðla upplýsingum byggðum á rannsóknum, á ábyrgan hátt til almennings. Þar er skemmst að minnast öflugrar upplýsingamiðlunar um jarðskjálftana og eldgosið á Reykjanesi
Eldhugi í miðlun vísinda. Sævar Helgi Bragason hefur sýnt einstakan áhuga og eldmóð við að miðla vísindum á aðgengilegan hátt til almennings og hefur starfað með Vísindavöku Rannís bæði sem sýnandi og vísindamiðlari. Hann leggur mikla áherslu á að kynna vísindi og fræði fyrir börnum og ungmennum og þótt geimvísindi og umhverfismál séu honum sérstaklega hugleikin, þá er hann líka mikill áhugamaður um að blanda saman vísindum og listum. Í gegnum starf sitt hjá RÚV heldur hann úti reglulegri umfjöllun um tækni og vísindi fyrir börn í útvarpi KrakkaRÚV og Krakkafréttum og átti hann stærstan þátt í því að endurvekja sjónvarpsþáttinn Nýjasta tækni og vísindi. Hann er einnig með reglulega pistla um vísindi í morgunútvarpi Rásar 2. Sævar hefur haldið úti ýmsum vefsíðum með fræðslu um vísindi, s.s. Stjörnufræðivefnum og Geimurinn.is, auk þess sem hann hefur setið fyrir svörum á Vísindavefnum. Flestir þekkja aðkomu Sævars Helga að sjónvarpsþáttum RÚV um loftslagsvandann, Hvað höfum við gert? og um lausnir við loftslagsvandanum, Hvað getum við gert? sem voru framleiddir af Sagafilm. Loks má nefna að Sævar hefur unnið með Listasafni Íslands að sýningunni Halló geimur! og með Sinfóníuhljómsveit Íslands að vísinda- og umhverfistónleikunum Undur jarðar þar sem töfrar jarðar og alheimsins fá nýja vídd í stórbrotnum og litríkum tónverkum.
Upptaka frá athöfninni