Úthlutun úr Sviðslistasjóði 2025
Umsóknarfrestur í Sviðslistasjóð rann út 1. október 2024. Sjóðnum bárust 115 umsóknir og sótt var um ríflega 1,6 milljarð króna í Sviðslistasjóð og launasjóð sviðslistafólks (1581 mánuðir í launasjóðinn).
Sviðslistaráð veitir 98 milljónum króna til 12 atvinnusviðslistahópa og fylgja þeim 102 mánuðir úr launasjóði sviðslistafólks (ígildi 57 milljóna), 98 mánuðum var úthlutað til einstaklinga í úthlutun listamannalauna.
Heildarstuðningur til sviðslistahópa og sviðslistafólks er því rúmlega 155 milljónir. Fjölda framúrskarandi verkefna sem áttu fullt erindi til að hljóta styrki Sviðslistasjóðs var hafnað.
Eftir nýlegar breytingar á reglum sviðslistasjóðs geta verkefni nú náð til allt að 36 mánaða eða tveggja leikára.
Hæstu úthlutun fá að þessu sinni Handbendi brúðuleikhús, Menningarfélagið Tvíeind og Áhugafélagið Díó. Áhersla var lögð á að veittir styrkir væru sem næst umsóttri upphæð.
Eftirtalin verkefni hlutu stuðning úr Sviðslistasjóði og launasjóði sviðslistafólks:
Handbendi Brúðuleikhús ehf. 24.000.000 kr.
10.560.000 kr. úr Sviðslistasjóði og 24 mánuðir úr launasjóði sviðslistafólks.
- Sviðslistahópur: Handbendi Brúðuleikhús
- Forsvarsmaður: Greta Ann Clough
- Tegund verkefnis: Brúðuleikhús/barnaleikhús
- Heiti verkefnis: Rót/Rooted
Lýsing: Nýtt þjóðlaga- söngleiksbrúðuleikhús fyrir fjölskyldur. Umfjöllunarefnið er að finna eigin rætur þegar farið er að heiman - eða fjarri heimkynnum.
Menningarfélagið Tvíeind, 22.000.000 kr.
11.920.000 kr. úr Sviðslistasjóði og 18 mánuðir úr launasjóði sviðslistafólks.
- Sviðslistahópur: Menningarfélagið Tvíeind
- Forsvarsmaður: Rósa Ómarsdóttir
- Tegund verkefnis: Listadans/ópera
- Heiti verkefnis: Sérstæðan
Lýsing: Sérstæðan er framtíðar-ópera. Vera án líkama syngur um tilvist sína eftir að hafa hvatt líkama sinn og hlaðið sér upp í alnetið. Verkið skoðar heim þar sem maður og gervigreind hafa runnið saman og vitsmunir yfirgnæft líkamlega skynjun. Verkið er óður til skynjunar, fyrir heim sem er að aftengjast náttúrunni. Allsherjar upplifun þar sem töfrum leikhússins er tjaldað fram. Sungnar eru vangaveltur um stöðu mannsins í framtíðinni á mörkum dystópíu og útópíu, með ljóðrænu og dass af húmor.
Áhugafélagið Díó, 18.500.000 kr.
10.660.000 kr. úr Sviðslistasjóði og 14 mánuðir úr launasjóði sviðslistafólks.
- Sviðslistahópur: Áhugafélagið Díó
- Forsvarsmaður: Aðalbjörg Þóra Árnadóttir
- Tegund verkefnis: Leiklist
- Heiti verkefnis: JÖTUNGÍMA KVEÐUR - minningarorð um mannkyn
Lýsing: JÖTUNGÍMA KVEÐUR er einleikur þar sem Jötungríma, sjarmerandi risasveppur á hjara veraldar, kveður minningarorð um mannkyn.
Elefant, félagasamtök, 15.000.000 kr.
13.880.000 kr úr sviðslistasjóði og 2 mánuðir úr launasjóði sviðslistafólks.
- Sviðslistahópur: Elefant, félagasamtök
- Forsvarsmaður: Jónmundur Grétarsson
- Tegund verkefnis: Leiklist
- Heiti verkefnis: Þegar ég sé þig, sé ég mig 2.0
Lýsing: Með afríska tónlist í eyrunum, úti er snjóbylur og myrkur. Þegar ég sé þig, sé ég mig. Í verkinu hittum við litað fólk á mismunandi stöðum í lífinu og heyrum sögur þeirra af öðrum, tengingu, fordómum og samstöðu. Leitast verður við að sviðsetja reynsluheim litaðra einstaklinga, gefa þeim rödd og brjóta niður ósýnilega veggi milli menningarstarfsemi og uppruna fólks. Hvað þýðir það að tilheyra mörgum menningarheimum? Nærðu að tilheyra þeim og standa fyrir utan þá í senn?
Menningarfélagið MurMur, 14.500.000 kr.
6.660.000 kr. úr sviðslistasjóði og 14 mánuðir úr launasjóði sviðslistafólks.
- Sviðslistahópur: Púðlur
- Forsvarsmaður: Kara Hergils Valdimarsdóttir
- Tegund verkefnis: Leiklist
- Heiti verkefnis: Púðlusafnið
Lýsing: Þegar amma dó erfði ég púðlusafnið hennar. Tvö hundruð postulínspúðlustyttur. Af hverju hafði amma sem ólst upp í bragga árið 1940 ástríðu fyrir þessum sýningarhundum?“ Í heimildarleikhúsinu Púðlusafnið munu systurnar Olga Sonja og Salóme Sól rannsaka söguna á bakvið púðlurnar og reyna að kynnast öðrum hliðum á ömmu sinni og þar með sjálfum sér. Þær munu nota söng og dans til að sprengja söguna út í draumkenndar senur þar sem þær sjálfar breytast í villtar púðlutíkur.
Svipir ehf, 13.000.000 kr.
3.480.000 kr. úr sviðslistasjóði og 17 mánuðir úr launasjóði sviðslistafólks.
- Sviðslistahópur: Atvinnuleikhópurinn Svipir
- Forsvarsmaður: Þór Tulinius
- Tegund verkefnis: Leiklist
- Heiti verkefnis: Bústaðurinn
Lýsing: Uppsetning á grátbroslegu absúrd-leikriti eftir Þór Tulinius. Bústaðurinn er glænýtt verk sem segir frá Tedda og Boggu, eldri ráðsettum hjónum sem fara í fár þegar portrett-teiknari, að því er virðist erlendur, fer að venja komur sínar fyrir utan sumarbústaðinn þeirra og falast eftir kúnnum þar sem nánast enginn er. Tregafullur söngur teiknarans ærir Tedda en seiðir Boggu. Hversdagurinn er brotinn upp og allt fer í skrúfuna hjá þessum "góðu" Íslendingum.
Sviðslistahópurinn Óður, 13.050.000 kr.
5770.000 kr. úr sviðslistasjóði og 13 mánuðir úr launasjóði sviðslistafólks.
- Sviðslistahópur: Sviðslistahópurinn Óður
- Forsvarsmaður: Sólveig Sigurðardóttir
- Tegund verkefnis: Ópera
- Heiti verkefnis: Lucia di Lammermoor
Lýsing: Óperan Lucia di Lammermoor eftir G. Donizetti í uppsetningu og íslenskri þýðingu Óðs í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll.
Miðnætti leikhús, 12.000.000 kr.
Styrkur úr sviðslistasjóði.
- Sviðslistahópur: Miðnætti
- Forsvarsmaður: Agnes Þorkelsdóttir Wild
- Tegund verkefnis: Barnaleikhús
- Heiti verkefnis: Hreiðrið
Lýsing: Hreiðrið er nýtt ungbarnaleikverk eftir Miðnætti, með lifandi tónlist, táknum með tali, dansi, brúðuleik og sirkustækni. Litlu leikhúsgestunum er boðið að setjast í stórt hreiður þar sem Ungamamma hefur komið sér fyrir ásamt egginu sínu. Upp hefst skemmtileg atburðarrás, en börnin og foreldrarnir taka virkan þátt í sýningunni. Þetta er falleg og ljóðræn saga sem höfðar vel jafnt til foreldra og barna og gefur margar hugmyndir að skapandi samverustundum þegar heim er komið.
Felix Urbina Alejandre, 11.600.000 kr.
Styrkur úr sviðslistasjóði.
- Sviðslistahópur: Beatiful Accidents- Felix Urbina
- Forsvarsmaður: Felix Urbina Alejandre
- Tegund verkefnis: Þverfaglegt/listdans
- Heiti verkefnis: Song of the Rebel Flower (Látið Blómin Tala)
Lýsing: Látið blómin tala er hugsað sem ágengt kórverk - óður til náttúrunnar og gleðskaps annarra vera. Leikverkið miðar að því að koma á framfæri lifandi söng náttúrunnar með hljóðmynd langspils, fagots, raftónlistar, radda og dans. Dansari, söngvari og tónlistarmenn kanna heim fólksflutninga, kynvitundar, íslenska kórhefð og vistfræðilega vitund. Hver er söngurinn sem við erfum og hver er gjöfin sem við skiljum eftir til komandi kynslóða?
Kammeróperan ehf. 6.470.000 kr.
Styrkur úr sviðslistasjóði.
- Sviðslistahópur: Kammeróperan
- Forsvarsmaður: Eggert Reginn Kjartansson
- Tegund verkefnis: Ópera
- Heiti verkefnis: Il Tabarro og Gianni Schicchi eftir G. Puccini
Lýsing: Kammeróperan setur upp óperurnar “Il Tabarro” og “Gianni Schicchi” eftir Giacomo Puccini í leikstjórn og nýrri íslenskri þýðingu Adolfs Smára Unnarssonar. Óperurnar verða fluttar á sama kvöldinu, Il tabarro fyrir hlé og Gianni Schicchi eftir hlé.
Haltáketti, félagasamtök, 3.000.000 kr.
Styrkur úr sviðslistasjóði.
- Sviðslistahópur: VENUS
- Forsvarsmaður: Anna Guðrún Tómasdóttir
- Tegund verkefnis: Listdans
- Heiti verkefnis: VENUS: Ásmundarsalur
Lýsing: Í verkinu Venus er gerð tilraun til að byrja upp á nýtt, núllstilla kvenlíkamann og finna nýjar leiðir til að sviðsetja hann. Við bjóðum þér í ferðalag á plánetu Venusar, femínísk útópía þar sem feðraveldið varð aldrei til. Hvernig myndir þú upplifa eigin líkama? Er hægt að horfa á kvenlíkama á sviði án þess að hlutgera hann? Litrík danssýning sem leikur við augað með sjónhverfingum og kitlar hláturtaugarnar á meðan gerð er tilraun til að frelsa kvenlíkamann.
Barnamenningarfélagið Skýjaborg, 2.000.000 kr.
Styrkur úr sviðslistasjóði.
- Sviðslistahópur: Bíbí & Blaka
- Forsvarsmaður: Tinna Grétarsdóttir
- Tegund verkefnis: Barnaleikhús
- Heiti verkefnis: Freedom of speech - evrópskt samstarfsverkefni fyrir unglinga
Lýsing: Rannsóknarvinna og söfnun efnis fyrir nýtt sviðsverk sem unnið verður 2026.
Evrópskir sviðslistahópar/leikhús vinna með ungmennum frá fjórum ólíkum löndum að nýju þátttökuverki um málfrelsi.
Sjá nöfn listamanna í sviðslitahópum sem úthlutun úr launasjóði sviðslistafólks er tengd við í uppfærðri frétt um úthlutun listamannalauna 2025 .
Sviðslistaráð skipa: Hafliði Arngrímsson formaður, án tilnefningar, Pétur Ármannsson, tilnefndur af SAFAS og Þóra Einarsdóttir, tilnefnd af SAFAS.
Sviðslistaráð starfar samkvæmt ákvæði 15. gr laga nr. 165/2019 um sviðslistir. Hlutverk Sviðslistasjóðs er að efla íslenskar sviðslistir og standa straum af öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista með úthlutun fjár úr sjóðnum til atvinnuhópa.