Óskað eftir fulltrúum í stjórnir markáætlana Horizon Europe
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur opnað fyrir tilnefningar fulltrúa í stjórnir nýrra markáætlana, sk. missions, sem eru ein af nýjungunum í næstu rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB, Horizon Europe (2021-2027). Eru íslenskir aðilar úr vísinda- og fræðasamfélaginu, jafnt sem úr atvinnulífinu, hvattir til að sækja um.
Leitað er að sérfræðingum á öllum fræðasviðum til að taka sæti í stjórnum sk. missions, sem eru þverfaglegar áætlanir með háleit markmið sem ætlað er að takast á við nokkrar af stærstu áskorunum nútímans.
Nánar um þverfaglegar markáætlanir Horizon Europe.
Auglýst er eftir stjórnarmeðlimum í fimm slíkar áætlanir, fimm einstaklingum í hverja stjórn, en hver þeirra hefur ákveðið svið til umfjöllunar; loftslagsbreytingar, fæðu og heilsu, krabbamein, umhverfisvænar borgir og verndun hafsvæða.
Lögð er áhersla á að viðkomandi einstaklingar séu með fjölbreytta reynslu og bakgrunn og komi jafnt frá öllum sviðum fræðasamfélagsins sem og úr atvinnulífinu.
Hægt er að sækja um til 11. júní nk. Allar nánari upplýsingar má nálgast á vefsvæði framkvæmdastjórnar ESB.
Sjá nánar um stöðu undirbúnings Horizon Europe , 9. rannsókna- og nýsköpunaráætlunar ESB.