Auglýst er eftir umsóknum um styrki í Markáætlun um samfélagslegar áskoranir fyrir styrkárið 2020-2023
Umsóknarfrestur er 1. september 2020 kl. 16:00.
Markáætlun um samfélagslegar áskoranir er opinn samkeppnissjóður sem starfar samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir (nr. 3/2003 með áorðnum breytingum). Áherslur áætlunarinnar eru ákvarðaðar af Vísinda- og tækniráði, en hún er fjármögnuð af mennta- og menningarmálaráðuneyti. Rannís er umsýsluaðili sjóðsins.
Markmið með styrkveitingum er að hraða framförum í þremur flokkum:
- Umhverfismál og sjálfbærni
- Heilsa og velferð
- Líf og störf í heimi breytinga
Hvatt er til þverfaglegs samstarfs sem stuðlar að rannsóknum og nýsköpun. Nauðsynlegt er að leiða saman þekkingu og styrkleika mismunandi fagsviða, tækni og fræðigreina, þ.m.t. félags- og hugvísinda og taka til alls nýsköpunarferlisins frá rannsóknum að hagnýtingu. Markmið vinnunnar er að auka skilning á íslensku samfélagi og umhverfi, finna lausnir og styðja við fjölbreytt og nýsköpunarmiðað samfélag á tímum örra breytinga.
Auglýst er eftir umsóknum um styrki úr Markáætlun um samfélagslegar áskoranir fyrir styrkárið 2020-2023. Umsóknarfrestur er til kl. 16:00 þann 1. september 2020.
Umsækjendur eru beðnir að kynna sér vel reglur Markáætlunar um samfélagslegar áskoranir áður en hafist er handa við gerð umsóknar. Umsóknum skal skilað rafrænt í gegnum umsóknarkerfi Rannís .