Frádráttur frá tekjum erlendra sérfræðinga 2021
Yfirlit um starf nefndar og þjónustu Rannís við afgreiðslu umsókna vegna frádráttar frá tekjum erlendra sérfræðinga á árinu 2021.
Reglugerð um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga
Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti, nr. 79/2016, var lögfest breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem felur í sér heimild til frádráttar frá tekjum erlendra sérfræðinga sem ráðnir eru til starfa hér á landi vegna sérþekkingar sinnar og reynslu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Reglugerð um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga, nr. 1202/2016, byggir á framangreindum lögum og var gefin út í lok árs 2016. Sækja þarf um heimild til frádráttar á heimasíðu Rannís og metur sérstök nefnd hvort umsækjandi teljist sérfræðingur í skilningi laganna og hvort skilyrði þeirra séu uppfyllt að öðru leyti. Heimild til frádráttar frá tekjum felur í sér, að þeir sem uppfylla ákveðin skilyrði laganna geta nýtt heimildina í tekjuskattslögum og þannig verða einungis 75% tekna þeirra tekjuskattsskyldar, bæði í staðgreiðslu og við endanlega álagningu, fyrstu þrjú árin í starfi.
581 umsókn á fimm árum
Nefndinni hefur í heildina borist 581 umsókn á fimm árum, þ.e. frá 2017 til og með 2021. Á árinu 2021 bárust nefndinni 196 umsóknir, sem er 60% aukning frá fyrra ári. 186 umsóknir hafa verið teknar til afgreiðslu, en 10 umsóknir bárust eftir síðasta fund ársins. 180 umsóknir hafa fengið endanlega afgreiðslu um höfnun eða samþykki, en óskað hefur verið eftir frekari upplýsingum í 6 tilfellum. Samþykktar hafa verið 146 umsóknir, en 34 hefur verið hafnað. Af 180 umsóknum sem bárust og voru afgreiddar komu 111 frá fyrirtækjum (62%), 27 frá háskólum (15%), 39 frá stofnunum (17%) og 3 eru flokkaðar sem annað rekstrarform (2%). Samþykktar umsóknir voru 146, eða 81% en 34, eða 19% var hafnað.
Skipting umsækjenda eftir kyni, menntun og þjóðerni
Karlar eru 63% umsækjenda, en voru 78% árið 2020. 37% umsækjenda voru með doktorspróf, en voru 29% árið 2020, 42% með masterspróf, en voru 45% árið 2020 og 15% með bakkalárpróf, en voru 18% árið 2020. Umsækjendur voru frá 41 mismunandi þjóð. Sem dæmi má nefna að 40 voru frá löndum innan ESB, 9 frá Norðurlöndunum, 33 frá Indlandi, 8 frá Kanada, 9 frá Bretlandi, 10 frá Bandaríkjunum, 4 frá Kína. Athygli vekur að 68 Íslendingar sóttu um heimild til skattafrádráttar en þeir voru 27 árið 2020 og 21 árið 2019. Í dæmaskyni má nefna að 50 umsóknir bárust frá Alvotech, 37 frá háskólum og stofnunum tengdum þeim, 28 frá Landspítala, 14 frá CCP, 5 frá Controlant og 4 frá Íslenskri erfðagreiningu.
Meðferð umsókna
Hin sérstaka nefnd sem fer yfir umsóknir og staðfestir eða hafnar því að tiltekinn erlendur sérfræðingur uppfylli skilyrði ákvæðis um frádrátt frá tekjuskatti, og skipuð var af fjármála- og efnahagsráðherra þann 23. desember 2016, hélt 16 bókaða fundi á árinu 2021. Hlutverk nefndarinnar er að fara yfir þær umsóknir sem berast henni og meta þær með tilliti til menntunarstigs, sérþekkingar, reynslu og fjárhæðar launa o.fl., í samræmi við áðurnefnd lög og reglugerð nr. 1202/2016. Í nefndinni sitja Ína Dögg Eyþórsdóttir, verkefnisstjóri Háskóla Íslands, Ingibjörg Helga Helgadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís sem er formaður nefndarinnar. Rannís hefur sett á fót umsóknar- og umsýslukerfi til þess að afgreiðsla og meðferð umsókna sé í samræmi við lög og reglugerðir.