Viðburðurinn Grænir styrkir skil­aði grænum tengingum

30.3.2023

Grænvangur, Rannís, Festa, Orkustofnun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stóðu að viðburðinum Grænir styrkir, 23. mars síðastliðinn, þar sem styrkir á sviði umhverfis-, loftslags- og orkumála voru kynntir auk þess gestum gafst tækifæri á að taka þátt í styrkjamóti og ræða við sérfræðinga.

  • 318A6277
  • 318A6421
  • 318A6456

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra opnaði fundinn og kom meðal annars inn á getu Íslands til að vera leiðandi í að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Bæði vegna þess stóra hlutverks sem íslenskt hugvit spilar í baráttunni, sem er mun stærra en ætla mætti út frá stærð þjóðar og sem mikilvæg fyrirmynd fyrir önnur ríki. Eigi markmið um loftslagamál að nást og hafa jákvæð áhrif verði allir aðilar að koma að borðinu og vinna saman.

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, benti á hve mikil jákvæð áhrif er hægt að hafa á allt samfélagið þegar hugmyndir og nýsköpun fá stuðning úr þeim sjóðum sem standa þeim til boða. Hún hvatti fundargesti til að taka af skarið, nýta þau tækifæri til sem væru til staðar hugsa minna hve stutt væri í næsta umsóknarfrest.

318A6321

Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, kom inn þá mikilvægi samvinnu allra aðila til að ná frekari árangri sérstaklega þegar kemur að tækifærum í alþjóðlegum samstarfsáætlunum. Það sem skipti ekki síður máli væri samstarfið, tengingarnar, þekkingin og hugvitið sem fæst út úr alþjóðasamstarfi og þegar kemur að hugvitinu þá séu vaxtarmöguleikarnir nær ótakmarkaðir.

318A6336

Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, nefndi þrjár breytur sem hún teldi mikilvægastar í baráttunni í loftslagsmálum og markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þær væru, nýsköpun hjá öllum þeim sem starfa í málaflokknum, samstarfið á milli allra aðila og fjármagn sem stendur aðilum til boða til að vinna að lausnum til framtíðar.

318A6377

Harpa Júlíusdóttir, verkefnisstjóri hjá Festu vakti athygli fundargesta á því að aldrei áður hefur verið eins greitt aðgengi að fjármagni í græn verkefni, hvort sem er hérlendis eða erlendis frá og því væri til mikils að vinna að tengja saman viðeigandi aðila og beina góðum hugmyndum í réttan farveg.

318A6381

Að loknum framsögum og kynningum á tækifærum til fjármögnunar og örsögum frá styrkþegum, bauðst fundargestum tækifæri á að taka þátt í styrkjamóti til að stuðla tengingu við stuðningsumhverfið, fyrirtækin, stofnanirnar og sveitarfélögin til að auðvelda samstarf til framtíðar. Viðburðurinn var virkilega vel sóttur. Um 120 mættu á fundinn og yfir 100 fundir á styrkjamótinu voru bókaðir. Ljóst er að þessi dagur skilaði grænum tengingum.

Rannís þakkar öllum þeim sem sóttu viðburðinn eða horfðu á í streymi en einnig samstarfsaðilum sem komu að skipulagi viðburðarins.

Hægt er að horfa á upptöku frá viðburðinum hér fyrir neðan









Þetta vefsvæði byggir á Eplica