Vel heppnuð sumarhátíð unga fólksins!
Hátíðarstemning ríkti í Laugardalnum í gær, fimmtudaginn 18. ágúst, þegar Rannís blés til sumarveislu í sundlauginni í tilefni af Evrópuári unga fólksins.
Viðburðurinn var vel sóttur og fór einstaklega vel fram. Meira að segja veðrið var í veislustuði því sólin skein á veislugesti eftir hellidembu fyrr um daginn.
Skólahljómsveit Kópavogs reið á vaðið í litríkum fötum með nokkur vel valin stuðlög sem komu gestum í rétta gírinn, hvort sem þeir voru svamlandi í lauginni eða dillandi sér á bakkanum. Þá hélt forstöðumaður Rannís, Ágúst Hjörtur Ingþórsson, stutta tölu um mikilvægi þess að skapa rými fyrir ungmenni svo raddir þeirra heyrist og virk þátttaka þeirra í samfélaginu sé tryggð.
Anya Shaddock flutti nokkur hugljúf lög úr eigin smiðju og Bjössi Sax og Helgi Hannesson stigu á stokk með djassaða takta. Í sundlaugargarðinum fór fram kennsla í strandblaki, sem vakti heldur betur lukku, og candyfloss, Skúbb-ís og popp rann ljúflega niður í veislugesti. Sundballethópurinn Eilífðin stóð fyrir skemmtilegum sundballet í lauginni og fékk til liðs við sig káta þátttakendur á öllum aldri.
Að lokum spilaði DJ Dóra Júlía hressandi tónlist og hreif með sér dansgjörningahópinn Dance in open space og aðra sem gátu ekki staðist taktfasta tónana.
Meðan á gleðinni stóð mundaði vegglistakonan xKarenÝrx pensilinn einbeitt á svip, en hún málaði fallega mynd í tilefni veislunnar sem fær áfram að prýða einn vegg Laugardalslaugarinnar.
Við færum öllum gestum bestu þakkir fyrir komuna, ekki síst þessu hæfileikaríka unga fólki sem gerði hátíðina svo ógleymanlega. Síðast en ekki síst þökkum við starfsfólki Laugardalslaugar fyrir frábært samstarf.
Nánar um: Evrópuár unga fólksins