Vel heppnaður samráðsfundur fyrir þátttakendur í verkefnum á vegum Uppbyggingarsjóðs EES
Samráðsfundur fyrir þátttakendur í verkefnum á vegum Uppbyggingarsjóðs EES var haldinn þann 1. febrúar sl. á vegum Rannís. Fundurinn fór fram bæði á Nauthóli og í fjarfundi.
Samráðsfundinn sóttu yfir þrjátíu þátttakendur og voru þeir ýmist þátttakendur í fjölbreyttum verkefnum á vegum sjóðsins, fulltrúar utanríkisráðuneytisins, skrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES í Brussel auk samstarfsaðila sjóðsins á Íslandi á vegum Rannís, Orkustofnunar og Mannréttindaskrifstofu.
Tilgangur fundarins var að kynna stöðuna á núverandi tímabili Uppbyggingarsjóðs EES, þar sem Rannís er áætlunarsamstarfsaðili (DPP), ásamt því að fá innlegg frá verkefnaaðilum á Íslandi um stöðu verkefna. Fundargestum var skipt niður í umræðuhópa til að ræða hvað mætti bæta í umgjörð og umsýslu verkefna í fjórum áætlunum Uppbyggingarsjóðs EES á yfirstandandi sjóðstímabili. Þær áætlanir sem um ræðir eru a) menntunaráætlun í Póllandi, b) menningaráætlun í Tékklandi, c) rannsóknaráætlun í Rúmeníu og d) nýsköpunaráætlun í Portúgal. Umræðuhóparnir voru tveir, þar sem annars vegar var rýnt í menntunar- og menningaráætlanir og hins vegar í rannsóknar- og nýsköpunaráætlanir.
Samráðsfundurinn heppnaðist vel og voru niðurstöður hópavinnunnar afar jákvæðar hvað snerti framkvæmd áætlunarinnar. Það var gagnlegt fyrir bæði þátttakendur í verkefnum sem og starfsfólk Rannís að heyra af þeim fjölbreyttu verkefnum sem hafa orðið að veruleika fyrir tilstuðlan Uppbyggingarsjóðsins, þær áskoranir sem þátttakendur hafa tekist á við í framkvæmd þeirra og þau miklu og jákvæðu áhrif sem verkefnin hafa haft.