Vaxtarsproti ársins er 1939 Games

2.9.2021

Fyrirtækið 1939 Games hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, afhenti Vaxtarsprotann 2. september sl. í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal.

1939 Games er tölvuleikja­fyrirtæki sem gefur út leikinn KARDS en sögu­svið hans er síðari heims­styrj­öldin. Velta fyrirtækisins jókst um 1.466% á milli áranna 2019 og 2020 þegar hún fór úr rúmum 15 millj­ón­um króna í 244 millj­ón­ir króna

Tvö önnur fyrirtæki, Coripharma og Algalíf, hlutu einnig viðurkenningar. Coripharma sérhæfir sig í framleiðslu og þróun lyfja fyrir önnur lyfjafyrirtæki um heim allan, ásamt því að þróa sín eigin lyf. Velta Coripharma jókst um 392% á milli áranna 2019 og 2020, fór úr 180 milljónum króna í 888 milljónir króna eða nær fimmfaldaðist. Algalíf hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir að velta í fyrsta sinn einum milljarði króna. Algalíf framleiðir örþörunga í hátækni vatnskerfum og vinnur úr þeim astaxanthín sem nýtt er í fæðubótaefni og snyrtivörur um allan heim. Fyrirtækið jók veltu úr 625 milljónum króna í rúman 1,2 milljarð króna á einu ári.

Þetta er í 15. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Í dómnefnd voru Gísli Hjálmtýsson fyrir Háskólann í Reykjavík, Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannís, Fida Abu Libdeh fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Sigríður Mogensen fyrir Samtök iðnaðarins.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica