Úthlutun úr Sviðslistasjóði 2024

23.1.2024

Umsóknarfrestur í Sviðslistasjóð rann út 2. október 2023. Alls bárust 108 umsóknir og sótt var um ríflega 1,3 milljarð króna í sviðslistasjóð og launasjóð sviðslistafólks (1.357 mánuðir í launasjóð). 

Sviðslistaráð veitir rúmlega 94 milljónum króna til 13 atvinnusviðslistahópa leikárið 2024/25 og fylgja þeim 139 mánuðir úr launasjóði sviðslistafólks (ígildi 75 milljóna), 51 mánuður var veittur einstaklingum utan sviðslistahópa.

Heildarstuðningur til sviðslistahópa og sviðslistafólks er því 169 milljónir.

Hæstu úthlutun fá að þessu sinni Stertabenda, Leikhúsið 10 fingur og Dáið er allt án drauma. Heildarstuðningur hvers verkefnis eru 20 milljónir en skipting stuðnings á milli sviðslistasjóðs og launasjóðs sviðslistafólks er mismunandi. Áhersla var lögð á að veittir styrkir væru sem næst umsóttri upphæð.

Eftirtalin verkefni hlutu stuðning úr sviðslistasjóði og launasjóði sviðslistafólks:

Stertabenda – leikhópur
Styrkur 9.240.000 kr. og 20 mánuðir. SLS og LML = 20.000.000 kr.

  • Sviðslistahópur: Stertabenda
  • Forsvarsmaður: Gréta Kristín Ómarsdóttir
  • Tegund verkefnis: Leiklist
  • Heiti verkefnis: SKAMMARÞRÍHYRNINGURINN (vinnutitill)

Lýsing: Skammarþríhyrningurinn er nýtt verk leikhópsins Stertabendu sem gerist í bælingarmeðferð. Fjórar hinsegin persónur mætast í skammarkróknum og keppast við að standast þversagnakenndar kröfur kynjatvíhyggjunnar ellegar vera dæmd úr leik. Við erum komin aftur í tímann, en þó fram í tímann - á dystópískan stað þar sem hatrið hefur unnið menningarstríðið. Leikhópurinn Stertabenda hallar sér inn í endamark bakslagsins og spyrnir við spriklandi fæti.

Leikhúsið 10 fingur
Styrkur 13.544.000 kr. og 12 mánuðir. SLS og LML = 20.000.000 kr.

  • Sviðslistahópur: 10 fingur
  • Forsvarsmaður: Ragnheiður Maísól Sturludóttir
  • Tegund verkefnis: Kóreógrafískt myndleikhús
  • Heiti verkefnis: LEIR

Lýsing: Leir er myndræn kóreógrafísk frásögn um sammannlega reynslu. Verkinu er miðlað í gegnum leir með virkri þátttöku áhorfenda. Því er ætlað að skapa upplifun þar sem við tengjumst fegurðinni sem birtist þar sem við eigum síst von á. Verkið byggir á persónulegri reynslu af sársauka og missi en minnir okkur líka á hversu litsterkur galdurinn er sem sprettur út úr svartnættinu. Flytjendur verksins bjóða áhorfendum í ferðalag um eigin upplifun í gegnum samtal og snertingu við leir.

Dáið er allt án drauma, menningarfélag
Styrkur 10.316.000 kr. og 18 mánuðir. SLS og LML = 20.000.000 kr

  • Sviðslistahópur: Dáið er allt án drauma
  • Forsvarsmaður: Adolf Smári Unnarsson
  • Tegund verkefnis: Ópera
  • Heiti verkefnis: INNANTÓM

Lýsing: „Innantóm“ er ný íslensk ópera eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson.

Kriðpleir-leikhópur, félagasamtök
Styrkur 8.278.000 kr. og 19 mánuðir. SLS og LML = 18.500.000 kr.

  • Sviðslistahópur: Kriðpleir
  • Forsvarsmaður: Ragnar Ísleifur Bragason
  • Tegund verkefnis: Leiklist
  • Heiti verkefnis: MUNDU TÖFRANA

Lýsing: Kriðpleir sviðsetur leikrit Elísabetar Jökulsdóttur, „Mundu töfrana“. Aðalpersóna þess heldur af stað í leit að týndu barni með aðstoð töfrakonu. Ritunarsaga textans teygir sig yfir rúmlega þrjátíu ára tímabil en fyrsta útgáfa leikritsins leit dagsins ljós árið 1992 og hefur ekki fengist sett upp í íslensku leikhúsi þrátt fyrir umleitan höfundar. Nú hillir undir að langri þrautagöngu Elísabetar með leikritið og persónur þess ljúki með aðkomu Kriðpleirs. Eða hvað …?

Menningarfélagið Marmarabörn (MM)
Styrkur: 9.892.000 kr. og 16 mánuðir. SLS og LML = 18.500.000 kr.

  • Sviðslistahópur: Marmarabörn
  • Forsvarsmaður: Kara Hergils Valdimarsdóttir
  • Tegund verkefnis: Leiklist/Samsköpunarverk/Brúðuleikhús/Danslist
  • Heiti verkefnis: ÁRIÐ ÁN SUMARS

Lýsing: Árið án sumars er samsköpunarverk fyrir stórt svið, seiðmagnaður gjörningur sem notar gotneskan hrylling til að skoða hvernig fortíðin ásækir okkur nú á dögum í formi hörmunga af völdum loftslagsbreytinga. Sótt verður í sögurnar um Frankenstein og Vampýruna en skyndilegar breytingar á loftslagi voru óbeint valdur að sköpun þessara þekktu skáldsagna. Við spyrjum: Hvernig má túlka breytingar á veðurfari út frá hugmyndinni um afturgöngur? Hópurinn frumsýnir sviðsverk í Borgarleikhúsinu haust 2024.

Menningarfélagið Tær
Styrkur: 7.082.000 kr. og 11 mánuðir. SLS og LML = 13.000.000 kr

  • Sviðslistahópur: Menningarfélagið Tær
  • Forsvarsmaður: Katrín Gunnarsdóttir
  • Tegund verkefnis: Danslist
  • Heiti verkefnis: SOFT SHELL

Lýsing: Soft Shell er hljóðrænt dansverk þar sem tveir dansarar liðast um sviðið eins og líkamlegir hátalarar, hvísla og skríða í tilbúnu vistkerfi. Verkefnið er hluti af stærri kóreógrafískri rannsókn (Þanið Þel: 2024-2027) sem skoðar áhrif tilbúinnar nándar þegar henni er miðlað gegnum sviðsnærveru. Hvernig hlustum við líkamlega gegnum ólík skilningarvit og hvaða áhrif hefur það á tengslin milli flytjenda og áhorfenda?

Common Nonsense sf.
Styrkur 1.740.000 kr. og 20 mánuðir. SLS og LML = 12.500.000 kr.

  • Sviðslistahópur: CommonNonsense
  • Forsvarsmaður: Ilmur María Stefánsdóttir
  • Tegund verkefnis: Leiklist
  • Heiti verkefnis: LAS VEGAN

Lýsing: Las Vegan fjallar um hvíta vestræna fjölskyldu í rofi, hjón á krossgötum með barn í myrkri tilvistarkreppu og einmana ömmu í herför gegn órétti í heiminum. Maðurinn er á barmi taugaáfalls og konan reynir að bjarga öllum nema sjálfri sér. Barnið hefur séð á TikTok að heimurinn muni samkvæmt vísindamönnum farast árið 2036. Konan bregður á það ráð að fara með alla fjölskylduna til Las Vegas til að láta drauma barnsins um að læra látbragsleik rætast áður en heimurinn ferst.

Alltaf nóg slf.
Styrkur: 12.000.000 kr.

  • Sviðslistahópur: Alltaf nóg slf
  • Forsvarsmaður: Ólöf Ingólfsdóttir
  • Tegund verkefnis: Danslist
  • Heiti verkefnis: 63 (vinnuheiti)

Lýsing: 63 er sólóverk þar sem saman tvinnast söngaríur frá barokktímanum og danshreyfingar dagsins í dag, eins og þær birtast í þeim líkama sem á sviðinu stendur í krafti reynslu sem aðeins fæst með því að hafa lifað nokkuð lengi. Lærdómur áranna verður uppspretta nýrrar tjáningar.

Nína Sigríður Hjálmarsdóttir
Styrkur: 10.200.000 kr.

  • Sviðslistahópur: Adam & Eva
  • Forsvarsmaður: Nína Sigríður Hjálmarsdóttir
  • Tegund verkefnis: Leiklist
  • Heiti verkefnis: EDEN

Lýsing: Í okkar Eden er lykt af píku og nýslegnu grasi, með hrúgu af hálfbitnum eplum í horninu. Það er eitthvað skrítið við okkar Eden, eitthvað á ská, eitthvað óþægilegt. Adam & Eva eru ekki að leika hlutverkin sín eins og þau hafa alltaf gert. Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Nína Hjálmars kafa hér inn í sköpunarsöguna og taka sér pláss í sjálfum aldingarðinum upprunalega. Eden er hinsegin paradís sem afmiðjar norm samfélagsins og leyfir áhorfendum að finna fyrir hinu erótíska innra með sér.

Sprengjuhöllin ehf.
Styrkur: 5.158.000 kr. og 9 mánuðir. SLS og LML = 10.000.000 kr.

  • Sviðslistahópur: Sprengihöllin ehf
  • Forsvarsmaður: Ásrún Magnúsdóttir
  • Tegund verkefnis: Danslist/leiklist
  • Heiti verkefnis: DÚETTAR(vinnutitill)

Lýsing: Sex ólík pör stíga á svið. Pörin geta verið mæðgur, vinir, hjón, NPA og skjólstæðingur eða hvernig pör sem er. Annar aðilinn er fatlaður, hinn ófatlaður. Pörin deila með áhorfendum sínum dansi eða minningu af dansi og sögunni sem dansinum fylgir. Þau dansa sinn brúðkaupsdans, eða dansinn sem þau kunna utan að úr Grease eða dansinn sem þau dansa í eldhúsinu á föstudögum þegar þau baka pizzuna. Fólki sem sjaldan sést á sviði er gefið sviðið, rödd þeirra hækkuð í botn og líkama þeirra fagnað.

Handbendi Brúðuleikhús ehf.

Styrkur: 1.044.000 kr. og 12 mánuðir. SLS og LML = 7.500.000 kr.

  • Sviðslistahópur: Handbendi Brúðuleikhús
  • Forsvarsmaður: Greta Ann Clough
  • Tegund verkefnis: Brúðuleikhús/Barnaleikhús
  • Heiti verkefnis: MEÐ VINDINUM LIGGUR LEIÐIN HEIM

Lýsing: Leikgerð upp úr bókinni Með vindinum liggur leiðin heim eftir Auði Þórhallsdóttur. Verkið verður frumsýnt á Hvammstanga en síðan farin sýningarferð. 

Stefnuljós ehf.
Styrkur: 2.424.000 kr. og 2 mánuðir. SLS og LML = 3.500.000 kr.

  • Sviðslistahópur: Bára og Tinna
  • Forsvarsmaður: Tinna Ottesen
  • Tegund verkefnis: Rannsókn
  • Heiti verkefnis: STILLA

Lýsing: Stilla er rannsóknarverkefni þar sem skurðarpunktar og samlegð kvikra efna og dansara eru könnuð. Verkefnið er samstarfsverkefni danshöfundarins Báru Sigfúsdóttur og rýmissagnahöfundarins Tinnu Ottesen.

Kammeróperan ehf.
Styrkur: 3.300.000 kr.

  • Sviðslistahópur: Kammeróperan ehf
  • Forsvarsmaður: Eggert Reginn Kjartansson
  • Tegund verkefnis: Tónleikhús/Barnaleikhús
  • Heiti verkefnis: DÝRAVÍSUR - tónleikhús fyrir leikskólabörn

Lýsing: Kammeróperan heimsækir leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni með sýninguna Dýravísur sem byggt er á samnefndu sönglagi eftir Jónas Ingimundarson í leikgerð Sigríðar Ástu Olgeirsdóttur.

Sjá nöfn listamanna í sviðslitahópum sem úthlutun úr launasjóði sviðslistafólks er tengd við í uppfærðri frétt um úthlutun listamannalauna 2024.

Sviðslistaráð starfar samkvæmt ákvæði 15. gr laga nr. 165/2019 um sviðslistir. Hlutverk Sviðslistasjóðs er að efla íslenskar sviðslistir og standa straum af öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista með úthlutun fjár úr sjóðnum til atvinnuhópa.

Sviðslistaráð skipa: Hafliði Arngrímsson formaður, án tilnefningar, Pétur Ármannsson, tilnefndur af SAFAS og Þóra Einarsdóttir, tilnefnd af SAFAS

*Birt með fyrirvara um villur









Þetta vefsvæði byggir á Eplica