Úthlutað úr Markáætlun í tungu og tækni
Stjórn Markáætlunar í tungu og tækni ákvað á fundi sínum 13. júlí sl. að styrkja sjö verkefni á sviði tungu og tækni um allt að 170 milljónir króna í annarri úthlutun áætlunarinnar 2020-2023. Alls bárust 13 umsóknir um styrk.
Hlutverk Markáætlunar í tungu og tækni er annars vegar að vernda og efla íslenska tungu og hins vegar að auðvelda nýtingu nýrrar samskiptatækni í íslensku samfélagi, til hagsbótar almenningi, stofnunum og fyrirtækjum.
Markáætlun í tungu og tækni er opinn samkeppnissjóður sem starfar samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir (nr. 3/2003 með áorðnum breytingum).
Upplýsingar eru birtar með fyrirvara um innsláttarvillur.
Eftirfarandi verkefni hlutu styrk:
Giggland
Verkefnisstjóri: Hákon Freyr Gunnarsson
Aðalumsækjandi: Alfreð ehf.
Verkefnið gengur út á að skapa allsherjarlausn fyrir gigghagkerfið í gegnum hagnýtingu á grunnrannsóknum undanfarinna ára innan íslenskrar máltækni í bland við sérsniðið meðmælakerfi. Lausnin leggur upp með að gera hverjum sem er kleift að auglýsa verkefni af hvaða gerð sem er og finna hæfa og áreiðanlega verktaka sem henta verkefninu. Notendur mynda sér orðstír innan kerfisins í gegnum endurgjöf fyrir lokin verkefni sem verða jafnframt sýnileg öðrum og þannig verður til verulegur félagsauður í formi áreiðanleika og gæðavottunar í gegnum fyrri verk. Þar sem lausnin ber kennsl á þá verktaka sem eru hæfastir hverju sinni að teknu tilliti til verðþjónustu skapast grundvöllur fyrir miklu breiðari þátttöku fólks í sjálfstæðri atvinnustarfsemi en þekkist hérlendis. Sveigjanleiki í lífi og starfi, jafnari samkeppnisgrundvöllur fyrir alla og öruggara umhverfi fyrir bæði verktaka og þá sem ráða þá eru allt væntar afurðir verkefnisins.
LÍSA - Lærum íslensku
Verkefnisstjóri: Berglind Einarsdóttir
Aðalumsækjandi: Austurbrú ses.
Námsleikurinn Lísa auðveldar innflytjendum að læra íslensku og að aðlagast íslensku samfélagi. Um leið er komið til móts við ákall innflytjenda og atvinnulífsins um að kenna samhliða grunnatriði íslenskunnar, atvinnumiðaðan orðaforða og hagnýta samfélagsfræðslu, óháð búsetu og vinnutíma nemandans. Fjölbreyttir möguleikar snjall- og máltækninnar verða nýttir til miðlunar og kennslu. Gæði verða tryggð með tengingu við viðurkennda námskrá í íslensku sem byggir á Evrópska tungumálarammanum. Hægt verður að tengja saman gagnaveitur s.s.upplýsingaveitur, orðabækur, þýðingarvélar, talgervla og talgreina. Lögð verður áhersla á samfélagsfræðslu í gegnum gagnvirk kort til að finna og auðvelda aðgengi að þjónustu. Austurbrú vinnur verkið í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið Locatify, Fjölmenningarsetur og fiskvinnslufyrirtækið Búlandstind á Djúpavogi. Starfsmenn Gunnarsstofnunar og Símeyjar í samstarfi við Studieskolen í Danmörku verða til ráðgjafar.
Máltækni allra landsmanna
Verkefnisstjóri: Eydís Huld Magnúsdóttir
Aðalumsækjandi: Tiro ehf.
Meðumsækjendur: Háskólinn í Reykjavík ehf. og Ríkisútvarpið ohf.
Markmið þessa verkefnis er að tryggja hagnýtingu talgreiningar í þágu allra landsmanna með því að breyta tali í texta hjá RÚV á fjölbreyttan og sjálfvirkan hátt. Þá er um að ræða lausnir sem nýtast áhorfendum beint í viðmóti á miðlum RÚV ásamt lausnum sem nýtast í innri starfsemi til að spara vinnu og ekki síst til að gera RÚV kleift að auka þjónustu við áhorfendur. Lagðir eru til verkþættir sem ýmist auka aðgengi að efni RÚV fyrir hópa með sérþarfir og fyrir almenning eða styrkja starf RÚV í sinni lögbundinni skyldu að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðar og menningararfleifð og hlutverk þess í almannavörnum.
Mikilvægur orðaforði fyrir fjöltyngi og vélþýðingar
Verkefnisstjóri: Steinþór Steingrímsson
Aðalumsækjandi: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Meðumsækjandi: Háskóli Íslands
Verkefnið miðar að því að byggja upp verkfæri sem auðvelda þeim sem eru að læra íslensku að bæta lesskilning og skilning á mikilvægum orðaforða í algengum textum. Úr verkefninu verða til lítil tvímála orðasöfn á sex tungumálum innflytjenda á Íslandi og textar á sjö tungumálum til að þjálfa þennan mikilvæga orðaforða. Þá verður smíðuð margmála málheild sem inniheldur þennan orðaforða, sem ætluð er til notkunar við prófanir á vélþýðingakerfum.
Sjálfvirk skjátextun fyrir erlent myndefni
Verkefnisstjóri: Vésteinn Snæbjarnarson
Aðalumsækjandi: Miðeind ehf.
Meðumsækjendur: Ríkisútvarpið ohf., Síminn hf. og Sýn hf.
Markmið verkefnisins er að þróa hugbúnaðarlausn sem setur íslenskan skjátexta sjálfkrafa við sjónvarpsefni á ensku. Þá er annars vegar átt við þýðingu skjátextaskráa, þar sem þær liggja fyrir og hins vegar þýðingu talrásar yfir í skjátexta. Til verksins verða notuð djúp tauganet, vélþýðingar- og mállíkön, sem þróuð hafa verið innan máltækniáætlunar. Verkefnið er unnið í samstarfi við RÚV ohf., Símann hf. og Sýn hf., sem munu leggja til söfn af áður þýddu og textuðu sjónvarpsefni úr fórum sínum, sem notuð verða í þjálfun tauganetanna. Afurðir verkefnisins eru sérhæfð þýðingarlíkön, annars vegar fyrir texta og hins vegar fyrir talrás, og safn þjálfunargagna á formi samhliða skjátexta á ensku og íslensku. Verkefnið getur lækkað kostnað sjónvarpsstöðva við að þýða enskt sjónvarpsefni og gert þeim auðveldara um vik að uppfylla þýðingarskyldu. Aðkeyptir efnispakkar nýtast þar með betur, en hingað til hefur ekki verið hagkvæmt að senda út allt efni í slíkum pökkum vegna kostnaðar við þýðingu.
TVÍK - gagnvirk íslenskukennsla
Verkefnisstjóri: Atli Jasonarson
Aðalumsækjandi: TVÍK ehf.
TVÍK, eða tæknivæddi íslenskukennarinn, er gagnvirkur kennsluvettvangur sem styðst við fjölda máltækniaðferða til að hjálpa þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í að tala íslensku.
Vélþýðingar milli pólsku og íslensku
Verkefnisstjóri: Vésteinn Snæbjarnarson
Aðalumsækjandi: Miðeind ehf.
Meðumsækjandi: Reykjavíkurborg
Markmið verkefnisins er að þróa sérhæfða þýðingarvél milli íslensku og pólsku. Verkefnið mun gefa af sér fjórar afurðir, þ.e. málheild með samröðuðum íslenskum og pólskum textum, djúpt tauganet sem þýðir sjálfvirkt milli tungumálanna, málheild með sjálfvirkt þýddum textum og opið viðmót til að prófa virknina. Verkefnið byggir á fyrri reynslu en Miðeind hefur þróað þýðingarvél milli íslensku og ensku og vinnur að því að víkka notkunarsviðið frekar með margmála þýðingum. Frumskoðun leiddi í ljós að töluvert er til af gögnum til að þjálfa þýðingarvélina og mun pólskumælandi starfsfólk meta gæði hennar. Vélin verður m.a. nýtt til að þýða allt efni á vef borgarinnar. Samfélagslegur ávinningur af verkefninu er fyrst og fremst fólginn í markvissari upplýsingamiðlun til stærsta innflytjendahóps landsins. Sveitarfélög, ríki og aðrir opinberir aðilar gætu nýtt sér þýðingarvélina. Þá mun aukast innlend þekking á sviði vélþýðinga, mállíkana og notkunar djúpra tauganeta til að miðla texta.