Ungmenni á Norðurlöndunum krefjast breytinga til sjálfbærni!
Dagana 1.-3.nóvember 2023 fór fram ungmennaráðstefna á vegum verkefnisins Menntun til sjálfbærni sem Rannís leiðir fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar, en ráðstefnan var skipulögð í samvinnu við Samfés. Á ráðstefnunni voru saman komin hátt í 70 ungmenni frá öllum Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðum Norðurlandanna.
Tilefni ráðstefnunnar var að fá að heyra raddir unga fólksins og fá þeirra álit á hvernig unnið er með sjálfbærni í skólum og hvernig tekist hefur til að samþætta sjálfbærni við þá kennslu sem fyrir er.
Ungmennin sem sátu ráðstefnuna unnu saman í málstofum og komust saman að niðurstöðu um þau skref sem að þeim þykir þurfa að taka tillit til svo að við getum átt sjálfbæra framtíð. Þau lögðu áherslu á að fyrst og fremst þyrfti upplýsingar og kunnáttu til að geta tekist á við þær áskoranir sem samfélagið stendur frammi fyrir. Þetta vildu þau gera með því að koma á sérstöku fagi sem tækist á við sjálfbærni eitt og sér, en auk þess lögðu þau ríka áherslu á að efla þyrfti kunnáttu og færni kennara í málaflokknum. Þriðja tillaga þeirra var að gefa nemendum og ungmennum frekari tækifæri til að hafa áhrif og koma sínum skoðunum á framfæri og að hafa áhrif á sína eigin framtíð.
Ungmennin sem sóttu Ísland heim fengu einnig tækifæri til að kynnast hvert öðru og landinu, en boðið var upp á bæði formlega og óformlega dagskrá þar sem lögð var áhersla á að unga fólkið fengi að upplifa íslenska menningu og náttúru.
Ungmennin unnu saman tillögur varðandi hvernig hægt væri að vinna nánar með sjálfbærni í skólum og kennslu og þær niðurstöður voru kynntar mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, við formlega athöfn. Á myndinni má sjá ráðherra taka við niðurstöðum hópsins.
Ísland fer einmitt með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og þessi viðburður var hluti af formennskuáætlun Íslands.
Niðurstöður hópsins: Young people and the future Education for Sustainable development
Verkefnið Menntun til sjálfbærni hefur komið á samstarfsneti á og milli Norðurlandanna sem vinnur að þvi að samþætta sjálfbærni við kennslu allra skólastiga. Menntun til sjálfbærni er eitt af sex verkefnum sem ætlað er að framfylgja þeirra framtíðarsýn að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði jarðar árið 2030.
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna gefur Margrét Sverrisdóttir verkefnastjóri.