Umsóknarfrestur og upplýsingafundur um stefnumótandi verkefni í Erasmus+
Umsóknarfrestur er nú opinn um KA3 verkefni sem styðja styrkhafa í að prófa sig áfram með ákveðna stefnumótun á sviði menntunar. Um er að ræða miðstýrðan verkefnaflokk, en það þýðir að umsjón með honum er ekki í höndum landskrifstofa heldur skrifstofunnar Education and Culture Executive Agency (EACEA), sem starfar í í Brussel. Sú skrifstofa stendur fyrir upplýsingafundi um frestinn og fer hann fram á netinu þann 6. febrúar.
Fresturinn á við ólík stig menntunar og þjálfunar og hefur með eftirfarandi málaflokka að gera:
-
Stafræn menntun, þar sem áhersla er meðal annars lögð á kynjajafnvægi í upplýsingageiranum, stafræna velferð og upplýsingalæsi í grunn- og framhaldsskólum.
-
Starfsmenntun, þar sem áhersla er meðal annars lögð á konur í grænni tækni og stuðning við nemendur í starfsnámi
-
Fullorðinsfræðsla, þar sem áhersla er meðal annars lögð á að taka höndum saman við að efla færni á vinnumarkaði og að styðja við „Pact for skills“
-
Leik-, grunn- og framhaldsskólar, þar sem áhersla er meðal annars lögð á mat á færni nemenda, nálgun skóla á andlega heilsu, uppbyggingu færni á sviði sjálfbærni og nám og þjálfun kennara.
-
Örnám, þar sem áhersla er meðal annars lögð á umgjörð örnáms og tengingu við stafrænu og grænu umskiptin.
-
Háskólar, þar sem áhersla er meðal annars lögð á stuðning stjórnvalda og sveitarfélaga við evrópsk háskólanet.
Misjafnt er milli málaflokka hver getur sótt um. Hverri umsókn er ætlað að takast á við einn málaflokk og eitt áhersluatriði undir þeim málaflokki. Ef umsækjendur vilja sækja um á fleiri sviðum þarf að senda inn fleiri en eina umsókn.
Upplýsingafundur EACEA hefst kl. 8:30 að íslenskum tíma þann 6. febrúar og tekur fyrir alla ofangreinda málaflokka. Nánari upplýsingar um fundinn má finna á síðu EACEA.
Umsóknarfrestur rennur út þann 4. júní 2024. Spurningar tengdar umsóknarferlinu má senda til EACEA-POLICY-SUPPORT@ec.europa.eu.