Umhverfisstofnun ásamt samstarfsaðilum hlýtur 3,5 milljarða styrk úr LIFE
Umhverfisstofnun hefur ásamt 22 íslenskum samstarfsaðilum gengið frá samningum vegna 3,5 milljarða króna styrk úr LIFE, umhverfis- og loftlagsáætlun ESB, vegna verkefnisins ICEWATER sem stuðlar að því að tryggja vatnsgæði á Íslandi.
Með
verkefninu gefast tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu
samstarfi ýmissa aðila með það fyrir augum að bæta vatnsgæði um allt land, auk
þess að hámarka ábata samfélagsins af slíkum aðgerðum.
Markmið verkefnisins eru
fjölþætt en því er ætlað að:
- Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi,
- Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum,
- Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni, og
- Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns.
Þetta er næst stærsti verkefnastyrkur Evrópusambandsins sem veittur hefur verið til íslenskra aðila en Carbfix hlaut árið 2022 16 milljarða króna styrk úr Nýsköpunarsjóði Evrópu (EU Innovation Fund) vegna verkefnisins Coda Terminal.
Auk Umhverfisstofnunar koma að verkefninu Eimur, Gefn, Grundarfjarðarbær, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Hveragerðisbær, Isavia, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafn Íslands, Orka náttúrunnar, Orkustofnun, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Ríkisútvarpið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umhverfis,- orku og loftslagsráðuneytið, Veðurstofa Íslands og Veitur, ásamt þremur óbeinum þátttakendum: Sveitarfélagið Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.
Nánari upplýsingar um ICEWATER má finna í fréttatilkynningu Umhverfisstofnunar.
LIFE veitir styrki vegna umhverfis- og loftslagsverkefna til fyrirtækja og opinberra aðila. Rannís aðstoðar umsækjendur við að finna tækifæri og undirbúa umsóknir. Nánari upplýsingar veita landstengiliðir LIFE:
- Björg María Oddsdóttir – bjorg.m.oddsdottir@rannis.is
- Svandís Ósk Símonardóttir – svandis.o.simonardottir@rannis.is
Lesa um LIFE áætlunin: Umhverfis- og loftslagsáætlun ESB
Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir og er hún fengin af vef UST.