Tólf prósenta aukning í umsóknum um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga milli ára

29.2.2024

Á árinu 2023 voru afgreiddar 303 umsóknir um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga, sem er 12% aukning miðað við árið áður. 

Heimild til frádráttar frá tekjum erlendra sérfræðinga felur í sér að þau sem uppfylla ákveðin skilyrði geta nýtt heimild í tekjuskattslögunum. Heimildin kveður á um að einungis 75% tekna þeirra eru tekjuskattsskyldar, bæði í staðgreiðslu og við endanlega álagningu, fyrstu þrjú árin í starfi. Umsóknir eru metnar með tilliti til menntunarstigs, sérþekkingar, reynslu og fjárhæðar launa og fleiri þátta. 

Á árinu 2023 voru afgreiddar 303 umsóknir sem er 12% aukning frá fyrra ári. 247 umsóknir voru samþykktar en 56 var hafnað sem gerir hlutfall samþykktra umsókna um 81%. 

Heimild til frádráttar frá tekjum erlendra sérfræðinga hefur verið í gildi frá árinu 2017 og fram til ársloka 2023 hafa borist tæplega 1.200 umsóknir.

Nánar um umsækjendur árið 2023

Karlar voru í meirihluta umsækjanda eða 61% á móti 39% kvenna. Munurinn lækkar á milli ára en árið  2022 voru karlar 66% af umsækjendum og konur 34%. 

Umsóknir (Hlutfall kynja)
Karlar61% 
Konur 39% 
Tæplega helmingur þeirra sem sóttu um frádráttinn á síðasta ári voru með meistarapróf eða 48% umsækjenda. 29% umsækjenda voru með doktorspróf og 19% með bakkalárpróf.

Umsóknir (Hlutfall menntunarstigs)
Doktorspróf
29% 
Meistarapróf 48% 
Bakkalárpróf 19% 
Þá voru fyrirtæki í meirihluta þeirra sem sækja um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga eða  64% sem er sambærilegt og árið 2022. 

 Tegund vinnustaðar (Hlutfall umsókna)%
Fyrirtæki 64%
Stofnanir20% 
Háskólar 14% 
Annað2% 

Nánar um meðferð umsókna

Sækja þarf um heimild til frádráttar á heimasíðu Rannís og metur sérstök nefnd hvort umsækjandi teljist sérfræðingur í skilningi laganna og hvort skilyrði þeirra séu uppfyllt að öðru leyti. Nefndin hélt 17 bókaða fundi á árinu 2023 og sem fyrr segir afgreiddi alls 303 umsóknir. Í nefndinni sitja Hallgrímur Jónasson fyrrverandi forstöðumaður Rannís, formaður, Ingibjörg Helga Helgadóttir sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Ína Dögg Eyþórsdóttir verkefnisstjóri ENIC/NARIC Matsskrifstofu.

Nánar um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga









Þetta vefsvæði byggir á Eplica