Tilnefningar til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

15.1.2025

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, 30. janúar næstkomandi. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2024. 

Stjórn sjóðsins hefur valið sex öndvegisverkefni en aðeins eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna. Forseti Íslands afhendir verðlaunin.

Verkefnin sem tilnefnd eru sem öndvegisverkefni eiga það sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en eru afar ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til. Þessi fjölbreytni endurspeglar ennfremur það frjóa og margbreytilega starf og nám sem háskólanemar á Íslandi og íslenskir námsmenn erlendis leggja stund á.

Verkefnin sem tilnefnd eru til verðlaunanna eru:

Eins og í sögu

Verkefnið Eins og í sögu var og er ætlað til þess að kenna íslensku og auka orðaforða með skapandi aðferðum, aðallega í gegnum ritun og frásögn og hvetja nýja Íslendinga til þess að láta rödd sína hljóma – á íslensku. Haldin voru alls sex örnámskeið á Borgarbókasafninu, þar sem skáldgleðin var við völd. Eitt þema var tekið fyrir á hverju námskeiði (veður, vinátta, veislur o.fl.) og voru námskeiðin þátttakendum að kostnaðarlausu. Markhópurinn var nýir Íslendingar, íbúar höfuðborgarsvæðisins með íslensku sem annað mál. Verkefnið snerist ekki endilega um að eltast við rétt eða rangt mál heldur hvetja frekar til tjáningar og notkunar á tungumálinu. Á námskeiðinu skapaðist andrúmsloft sem hvatti þátttakendur á ólíkum getustigum til að prófa sig áfram, láta vaða og deila eigin sköpun og reynslu innan hópsins.

Fyrir hvert námskeið var útbúið námsefni; orða- og hugtakalistar ásamt kveikjum og stuttum örsögum sem hópurinn fór yfir saman. Kennsluaðferðirnar voru skapandi en byggðu á fjórum meginþáttum tungumálanáms: ritun, hlustun, lestri og töluðu máli. Markvisst var unnið með risamálheild íslenskrar tungu auk orðalistans LÍNÓ II, svokölluð námsorð í íslensku tungumáli.

Einnig fólst verkefnið í að miðla reynslu og þekkingu til þeirra sem kenna reglulega íslensku sem annað tungumál. Vísbendingar innan tungumálafræða sýna að ritun og þá sérstaklega frjáls ritun sé vannýtt en árangursrík aðferð við kennslu. Í þessu verkefni var látið reyna á að tengja fræði og skáldskap í kennslu. Árangurinn var kynntur kennurum hjá Mími símenntun og í námsbrautinni Íslenska sem annað mál við HÍ, þeim til frekari hvatningar, fræðslu og sköpunar.

Verkefnið var unnið af Berglindi Ernu Tryggvadóttur og Þórunni Rakel Gylfadóttur nemum í ritlist í Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Rúnar Helgi Vignisson Prófessor við Ritlist í Háskóla Íslands

Fataframleiðsla framtíðar

Þróuð er ný aðferð við framleiðslu á fatnaði. Í stað þess að klippa fataefni eftir sniði og sauma saman er notast við tvívítt form sem náttúrulegu fljótandi gelatín efni er hellt í. Í stað þess að mæla fataefni í millimetrum er það mælt í millilítrum og þar af leiðandi er hægt að mæla út með nákvæmari hætti hversu mikið magn af hráefni þarf í hverja flík. Þegar efnið hefur þornað verður það að lífrænu plastlíki og hægt að taka það úr mótinu og fullvinna flíkina.

Markmið verkefnisins er í raun tvíþætt, draga úr efnissóun sem nú verður við framleiðslu á fatnaði— því við þessa framleiðsluaðferð verður ekkert umfram efni til s.s. afklippur. Sem og að gera efnið niðurbrjótanlegt svo það samlagist náttúrunni þegar líftíma þess líkur. Markmið verkefnisins er að þróa nýtt vistvænt textílefni sem hefur fullnýtingu að leiðarljósi

Verkefnið var unnið af Írisi Lind Magnúsdóttur nema í lyfjafræði við Háskóla Íslands og Valdís Steinarsdóttir hönnuður var umsjónarmaður verkefnisins ásamt Má Másyni og Vivien Nagy, Minamo ehf.

Íslandssaga skynfæra: Sjálfsbókmenntir á Íslandi

Verkefnið snýst um bókarskrif nemanda og leiðbeinanda um skynjun Íslendinga á hinni löngu 19. öld og hvernig þeir beittu skynfærum sínum í daglegu lífi. Bókin er skrifuð innan sviðs sögu tilfinninganna (e. history of emotions) sem hefur verið vaxandi rannsóknaráhersla í sagnfræði víða erlendis en hefur lítið verið sinnt hér á landi. Til þess að nálgast þetta óvenjulega rannsóknarsvið var unnið með stóran gagnagrunn um sjálfsbókmenntir (e. egodocuments) sem tekinn var saman á tíunda áratug 20. aldar af leiðbeinanda verkefnisins. Honum var komið á stafrænt form í tengslum við rannsókarverkefnið og hann stórlega aukinn. Sjálfsbókmenntir eins og sjálfsævisögur, endurminningarrit, samtalsbækur, sendibréf og dagbókarskrif hafa verið snar þáttur í bók- og handritamenningu Íslendinga á því tímabili sem rannsóknin tekur til. Um er að ræða mikið efni sem lítið sem ekkert hefur verið unnið með hingað til þegar virkni skynfæra landsmanna er til rannsóknar eða saga tilfinninganna. Sú vinna hefur verið ákveðin grunnur fyrir framhald verkefnisins og hugsunin er að deila þessum gagnagrunni með vísindasamfélaginu í opnum aðgangi. Í bókinni sjálfri – Íslandssaga skynfæra: Sjálfsbókmenntir á Íslandi – er fjallað almennt um skynfæri fólks og hvernig þau eru háð sögulegum aðstæðum. Megináherslan er á lykt í sögulegu ljósi og hvernig hún fór að leika stærra og stærra hlutverk þegar nær dró samtíma okkar. Beitt er bæði almennri nálgun menningarsögunnar og aðferðum einsögunnar (e. microhistory) en þar er áhersla lögð á að taka fyrir afmarkað rannsóknarsvið og kanna það í þaula. Við reiknum með að bókin verði á milli 70-90 þúsund orð.
Verkefnið var unnið af Ragnhildi Björt Björnsdóttur, BA-nema í sagnfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Háskóla Íslands

Lífupplýsingafræðileg greining á kælisvari frumna

Tímabundinn súrefnisskortur í heila getur valdið langvarandi taugaskaða. Marksækin hitastýring (e. targeted temperature management) er inngrip sem felst í því að lækka líkamshitastig sjúklinga niður í væga ofkælingu (32-35°C) til að vernda heilann eftir súrefnisskort. Væg ofkæling virkjar taugaverndandi viðbragð í heilanum og gerir hann þannig þolnari fyrir súrefnisskorti. Þetta taugaverndandi viðbragð hefur verið nefnt „væga ofkælingarviðbragðið“ (e. mild hypothermic response). Vandamálið við marksækna hitastýringu er að hún hefur í för með sér alvarlegar aukaverkanir. Markmið okkar er að kortleggja þætti sem gegna lykilhlutverki í væga ofkælingarviðbragðinu, svo unnt verði að virkja viðbragðið með lyfjum í stað ofkælingar.

Í dag hafa fimm þættir verið staðfestir sem hlutar af væga ofkælingaviðbragðinu og við höfum uppgötvað eitt lyf sem virðist virkja ferilinn en verkunarhátturinn er óljós. Hér höfum við þróað lífupplýsingafræðilega greiningu sem nýtir opinber RNA-raðgreiningargögn frá alþjóðlegum gagnasöfnum. Greiningin nýtti bæði gervigreind og þekkt greiningatól og skiptist í þrjá meginhluta: 1) Uppgötvun á öllum rannsóknargögnum þar sem gen sem mögulega tengist væga ofkælingarviðbragðinu út frá þekktum eiginleikum kælingar hefur verið slegið út. 2) Stöðlun á RNA-raðgreiningargögnum og undirbúningur fyrir greiningu. 3) Greining á gögnum og myndræn framsetningu á því hvernig tjáning kæligenanna breytist þegar genin af listanum eru slegin út. Með þessu móti nýtum við öll tiltæk gögn úr gagnagrunnum og greinum þau öll á samræmdan hátt. Þessi greiningaraðferð er ekki bundin við þessa ákveðnu rannsóknarspurningu. Hún getur nýst til að svara ýmsum öðrum spurningum með því að nýta fyrirliggjandi rannsóknargögn og spara þannig bæði tíma og kostnað áður en lengra er haldið í frekari tilraunum. Með þessu móti má flýta uppgötvunum og draga úr þörf fyrir dýrarannsóknir.

Niðurstöður okkar eru afar lofandi og benda til þess að þættir sem miðla m6A-breytingum á mRNA umritum gegni lykilhlutverki í stjórnun kælisvarsins en þessu hefur ekki verið lýst áður. Það sem meira er, lyf sem áður fannst í lyfjaskimun sem framkvæmd var af hópnum okkar, virðist virkja þetta sama svar. Höfum við gert rannsóknir til að prófa þetta sem virðast styðja að verkunarháttur lyfsins sem við fundum við lyfjaskimunina gæti grundvallast á m6A-breytingum. Þessar niðurstöður opna því á möguleikann að færa þetta lyf í dýratilraunir og síðan í klínískar prófanir á mönnum til að sjá hvort hægt sé að lyfja væga ofkælingaviðbragðið til að draga úr heilaskaða eftir súrefnisskorti á heila.
Verkefnið var unnið af Valdimari Sveinssyni nema í læknisfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Kimberley Anderson Rannsóknarstofustjóri og Hans Tómas Björnsson Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands

One man's trash is another man's treasure

Verkefnið "One Man's Trash is Another Man's Treasure" rannsakar hvernig hægt er að nota lífkol, viðarösku, lífrænan úrgang og afurðir Bokashi aðferðarinnar til þess að bæta íslenskan jarðveg til ræktunar. Markmiðið er að takast á við áskoranir í landbúnaði. Áskoranir þess liggja meðal annars í slæmum eiginleikum jarðvegsins þar sem hann er of súr og of vatnsheldinn. Rannsóknin leyddi í ljós kosti þess að nota lífkol sem bæta jónaskiptahæfni og vatnsheldni jarðvegsins en einnig kosti við viðarösku sem veitir mikilvæga næringu ásamt því að minnka sýrustig jarðvegsins. Loks framleiðir Bokashi-aðferðin næringarríkar afurðir sem bælir sjúkdómsvaldandi örvera. Tilraunir sýndu fram á fjölbreyttan ávinning af tækninni þar sem hún bætti spírun og aðgengileika næringaefna. Þessar niðurstöður gefa vísbendingu um mikla möguleika á landbúnaðarlegum ávinningi með frekari rannsóknum og hámörkun.
Verkefnið var unnið af Sigrúnu Emelíu Karlsdóttur nemenda í líftækni við Háskólann á Akureyri og Liam F O M Adams O´Malley nemanda í búvísindum við Landbúnaðarháskólann. Leiðbeinandi var Hreinn Óskarsson hjá Land og Skógur

Þarahrat

Verkefnið snýst um að þróa ný staðbundin og niðurbrjótanleg efni úr lífrænum úrgangi frá fyrirtækinu Algalíf sem ræktar smáþörunga fyrir framleiðslu á bætiefninu Astaxantín. Lífræni úrgangurinn er í formi hrats sem fellur til í lok framleiðsluferlisins, en það hefur ekki verið nýtt og er ýmist fargað eða gefið í landbúnað sem áburður. Það er hinsvegar ekki hentugur áburður vegna skorts á næringarefnum og því vert að skoða betri nýtingu á þeim 95 tonnum sem falla til á ári hverju af þessu efni. Markmið verkefnisins er að þróa nýjan, umhverfisvænan efniðvið og lengja líftíma hratsins með því að bæta skrefi við hringrás þess. Í stað niðurbrots fær það nýjan tilgang t.d. sem efniviður í pakkningar eða byggingarefni og gæti e.t.v. orðið staðgengill mengandi efna nútímans. Teymið er tvíeyki skipað nema í efnaverkfræði og hönnun, og þverfaglegum efnis- og textílhönnuði sem nemur við Norman Foster Institute, og leggja þær saman ólíka krafta sína.

Fjölbreytt efni og aðferðir hafa verið þróuð á borð við eldfast samsett efni og flísar, en í tilraunaferlinu hafa fleiri nýtingarmöguleikar bæst við sem verið er að kanna betur, svo sem landgræðsla og endurheimt lífríkis, tímabundinn arkitektúr og fjölbreytt vöruþróun. Nýsköpun með þessa afurð gæti þar með skapað nýja tekjulind, fleiri störf og aukna valkosti í flóru staðbundinna, sjálfbærra og niðurbrjótanlegra efna sem næra umhverfið og koma til móts við kröfur neytandans. Verkefnið byggir á aðferðafræði sem hægt er að yfirfæra á fleiri vannýttar afurðir úr staðbundnum iðnaði og bendir á möguleika þess að skapa verðmæti úr úrgangi."

Verkefnið er unnið af Sólrúnu Arnarsdóttur MA nema í Sustainable Cities frá Norman Foster Institute í London og Universidad Autonoma de Madrid og Ísafold Kristínu Halldórsdóttur efnaverkfræðinema við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi er Jan Eric Jessen hjá Algalíf

Nánar um Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru fyrst veitt árið 1996. Í stjórn sjóðsins 2023-2026 sitja; Björgvin Stefán Pétursson, formaður, skipaður án tilnefningar, Sævar Helgi Bragason, tilnefndur af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, Ásdís Jóhannesdóttir, tilnefnd af Samtökum iðnaðarins, Alexandra Briem, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Erla Guðbjörg Hallgrímsdóttir, tilnefnd af Landssamtökum íslenskra stúdenta.

Árlega velur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna um 10 verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Stjórn sjóðsins byggir mat sitt á verkefnum á mati fagráða sjóðsins, en þau eru sex, sjá nánar á vefsvæði sjóðsins.

  1. fagráð á sviði félagsvísinda, lögfræði og menntavísinda
  2. fagráð á sviði lífvísinda, klínískar rannsókna og lýðheilsu
  3. fagráð á sviði hugvísinda og lista
  4. fagráð á sviði náttúru- og umhverfisvísinda
  5. fagráð á sviði raunvísinda og stærðfræði
  6. fagráð á sviði verkfræði og tæknivísinda








Þetta vefsvæði byggir á Eplica