Þriðja verkefnið undir íslenskri forystu hlýtur úthlutun úr LIFE

5.9.2023

Á dögunum skrifuðu Íslensk nýorka, Eimur, Vestfjarðastofa og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra undir samning vegna 225 milljóna króna (1,5 milljónir evra) styrks úr LIFE, umhverfis- og loftlagsáætlun Evrópusambandsins.

Um er að ræða verkefnið Rural Europe for the CleanEnergy Transition (RECET) og er verkefnið unnið í samstarfi við sveitarfélagið Postojna í Slóveníu, Blekinge sýslu í suðaustur-Svíþjóð og sveitarfélög á eyjunni Menorca á Spáni. „RECET verkefnið sem hefst nú í október mun efla getu sveitarfélaga á fimm svæðum í Evrópu til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir í sátt við hagsmunaaðila og samstarfi við atvinnulíf.“, segir Dimitris Sofianopoulos, verkefnastjóri hjá CINEA, Framkvæmdastofnun Evrópu um loftslags-, innviða- og umhverfismál, eins og fram kemur í fréttatylkynningu Eims.

Fyrr á árinu hlaut verkefnið Terraforming LIFE styrk upp á 875 milljónir króna (6 milljónir evra). Verkefnið miðar að því að þróa nýja aðferð til að framleiða áburð og lífgas úr þeim lífræna úrgangi sem fellur til við fiskeldi á landi og úr landbúnaði. Það eflir hringrásarhagkerfi innlendrar matvælaframleiðslu, samhliða því að minnka kolefnisspor og stuðla að umtalsvert jákvæðari umhverfisáhrifum bæði í landbúnaði og fiskeldi. Verkefnið er til fjögurra ára og er samstarf Landeldis hf, Bændasamtakanna, Orkídeu og Ölfus Cluster og færeyska tækniráðgjafafyrirtækisins SMJ, með stuðningi frá Blue Ocean Technology í Noregi. Mun verkefnið efla "hringrásarhagkerfi innlendrar matvælaframleiðslu, samhliða því að minnka kolefnisspor og stuðla að umtalsvert jákvæðari umhverfisáhrifum bæði í landbúnaði og fiskeldi," eins og kemur fram í fréttatilkynningu frá samstarfsaðilum.

Þá hlaut verkefnið LIFE-PRE-ICEWATER á vegum Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands einnig styrk upp á 10,2 milljónir króna. Verkefnið er svokallað Technical Assistance Project ætlað að leggja grunn að umfangsmeira verkefni við innleiðingu vatnastjórnunarkerfi hjá ríki og sveitarfélögum.

LIFE áætlunin fjármagnar verkefni sem takast á við umhverfis- og loftslagsbreytingar og hefur Ísland verið aðili að áætluninni síðan árið 2021.

Nánar um LIFE áætlunina

Upplýsingar um LIFE veitir Björg María Oddsdóttir, landstengiliður (bjorg.m.oddsdottir@rannis.is)









Þetta vefsvæði byggir á Eplica