Þriðja úthlutun úr UK-Iceland Explorer námsstyrkjasjóðnum
Í ágúst voru veittir námsstyrkir úr UK-Iceland Explorer námsstyrkjasjóðnum í þriðja sinn til íslenskra nemenda sem hefja nám í Bretlandi, annaðhvort á meistara- eða doktorsstigi.
Geimferðastofnun Bretlands, UK Space Agency, veitir styrkina í samstarfi við Rannís, breska sendiráðið í Reykjavík og íslensk yfirvöld.
Sjóðurinn var stofnaður til að styðja við samstarf milli Bretlands og Íslands á sviði háskólamenntunar og þjálfunar og styður við íslenska nemendur sem vilja stunda nám eða þjálfun í Bretlandi.
Rannís tók við fjölbreyttum og vönduðum umsóknum þar sem meðal annars voru nemendur í alþjóðasamskiptum, eðlisfræði, hugbúnaðarverkfræði og stærðfræði. Að þessu sinni voru veittir fjórir styrkir og eru styrkhafar ársins 2024 þau Katrín Lea Elenudóttir, Erna Kristín Elíasdóttir, Jón Hákon Garðarsson og Hanna Margrét Jónsdóttir.
Hver styrkur nemur 10.000 pundum en auk þess hafa styrkþegar möguleika á launaðri starfsþjálfun við breskt fyrirtæki eða stofnun.
Næst verður auglýst eftir umsóknum í upphafi árs 2025.
Við óskum styrkhöfunum innilega til hamingju með styrkinn og vonum að námsdvölin í Bretlandi verði bæði ánægjuleg og lærdómsrík.
Á myndinni má sjá styrkhafa 2024 taka við styrknum við breska sendiherrabústaðinn ásamt Dr. Bryony Mathew sendiherra Bretlands.