Tækniþróunarsjóður í samstarf við KLAK um Dafna
Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís og Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups, komu saman í Grósku 10. ágúst sl. til að undirrita samning milli Tækniþróunarsjóðs og KLAK um stuðningskerfið Dafna.
Tækniþróunarsjóður er samkeppnissjóður sem styrkir nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla til að þróa nýstárlegar vörur og þjónustu. Dafna er samstarfsverkefni Tækniþróunarsjóðs og KLAK og er ætlað styrkþegum sem fá stuðning úr styrktarflokkum Sprota og Vexti í vor- og haustúthlutun Tækniþróunarsjóðs. KLAK hefur umsjón með Dafna og er styrkþegum boðin þátttaka í vinnustofum í Grósku og aðgang að mentorum sem aðstoða styrkþega í sinni vöruþróun. Mentorasamfélag hjá KLAK samanstendur af reyndum aðilum úr atvinnulífinu og er byggt upp í samstarfi við MIT sem hefur þróað sitt mentorafyrirkomulag í yfir tvo áratugi.
Samstarf Tækniþróunarsjóðs og KLAK mun styðja betur við verkefni sem eru mislangt komin á nýsköpunarkeðjunni, allt frá hugmyndavinnu til verkefna með vöruþróun sem er langt komin. Dafna er einstakt tækifæri fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki til að ná árangri á þeirri vegferð sem þau eru á.
Með samningnum er Tækniþróunarsjóður að auka þjónustu við styrkþega og festa þannig Dafna í sessi sem stuðningskerfi fyrir sprota sem hafa fengið styrk frá sjóðnum.