Stór styrkur til rannsóknar á geðheilsu áhættuhópa í COVID-19

6.11.2020

Rannsóknarhópur undir forystu Unnar Önnu Valdimarsdóttur, prófessors í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, hefur hlotið um 150 milljóna króna styrk frá norrænu rannsóknastofnuninni NordForsk til rannsóknar sem tengist áhrifum kórónuveirufaraldursins á geðheilsu í fjórum norrænu ríkjanna og Eistlandi.

Rannsókn Unnar og samstarfsfólks nefnist Þróun geðheilsu í áhættuhópum fimm landa í heimsfaraldri COVID-19. Í henni er ætlunin að bregðast við ákalli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og vísindasamfélagsins um auknar rannsóknir á áhrifum kórónuveirufaraldursins á geðheilsu fólks. Rannsóknarhópur undir forystu Unnar hlýtur 150 milljóna króna styrk.

Rannsóknin er eitt fimm norrænna rannsóknarverkefna sem tengjast heimsfaraldrinum sem fá styrk að þessu sinni. Öll hafa það að markmiði að auka þekkingu í þágu heimsins alls á áhrifum þessa skæða sjúkdóms. Um leið er ætlunin að efla samstarf norrænna vísindamanna þannig að löndin verði betur í stakk búin til þess að takast á við slíka faraldra í framtíðinni. 

Rannsakendur frá Norðurlöndunum og Eistlandi taka þátt en alls hefur NordForsk lagt til 53 milljónir norskra króna til verkefnisins, jafnvirði um 797 milljóna íslenskra króna. Verkefnið er samvinnuverkefni NordForsk, sænska rannsóknaráðsins, Akademíu Finnlands, Nýsköpunarsjóðs Danmerkur, Rannsóknaráðs Noregs, Rannsóknamiðstöð Íslands (RANNÍS), Eistneska rannsóknaráðsins, Lettneska ráðuneytisins fyrir menntun og vísindi.

Rannís óskar Unni og samstarfsfólki innilega til hamingju með styrkinn!

Frekari upplýsingar:









Þetta vefsvæði byggir á Eplica