Stjórn Innviðasjóðs auglýsir eftir tillögum á nýjan vegvísi um rannsóknarinnviði

20.5.2024

Ein af lykilstoðum framúrskarandi árangurs í vísindum og rannsóknatengdri nýsköpun er gott aðgengi að rannsóknarinnviðum. Í uppbyggingu rannsóknarinnviða felst mikil fjárfesting og skuldbinding um rekstur til lengri tíma og því mikilvægt að slík fjárfesting byggi á faglegri ákvarðanatöku, heildarsýn og stefnu til framtíðar

  • Iss_6429_16068

Fyrsta vegvísi um rannsóknarinnviði á Íslandi var ýtt úr vör árið 2021. Væntanlegir umsækjendur voru hvattir til að senda inn tillögur að uppbyggingu innviðakjarna. Þannig fékkst hugmynd um þörf á uppbyggingu innviða/innviðakjarna og í kjölfarið gátu rannsóknarhópar innan sérsviða sameinast um umsókn á vegvísi.

Valin voru sex verkefni á fyrsta vegvísi um rannsóknarinnviði. Fyrsta úthlutun var árið 2021 og alls var úthlutað fjórum sinnum til verkefnanna sex. Þessum verkefnum er nú lokið en aðstandendur þeirra geta sótt um á nýjan vegvísi eins og aðrir hópar.

Innviðasjóður auglýsir nú eftir tillögum á nýjan vegvísi um rannsóknarinnviði og verður ferlið það sama og áður. Fyrsta úthlutun verður í janúar 2025 og gert ráð fyrir að vegvísirinn gildi í þrjú til fjögur ár.

Lykilatriði við að ná sem bestum árangri við gerð umsókna um verkefni/innviðakjarna á nýjan vegvísi er að rannsóknasamfélagið vinni saman. Til þess að setja saman umsókn um innviðakjarna er nauðsynlegt að rannsakendur skoði umhverfi sitt og hugi á framsækinn hátt að öllum möguleikum á samvinnu við nýtingu og uppbyggingu innviða. Til þess að auðvelda rannsakendum þessa vinnu og ná fram sem sterkustum umsóknum á vegvísi verður boðið upp á að senda inn tillögu að verkefni fyrir vegvísi. Tillögum skal skila inn á þar til gerðu eyðublaði og skulu vera að hámarki 3 blaðsíður en leyfilegt er að senda inn viðauka með umsókn ef þess þarf. Tillögurnar verða ekki sendar í faglegt mat en þær verða birtar á heimasíðu Innviðasjóðs þar sem vísindasamfélagið getur kynnt sér þær og tekið upp samtal sín á milli. Með slíku ferli geta umsækjendur náð til fleiri mögulegra notenda og þannig styrkt umsóknir sínar með samvinnu.

Tillögur um verkefni á nýjan vegvísi

Allar tillögur um verkefni á nýjan vegvísi skulu sendar inn í gegnum rafrænt umsóknakerfi Innviðasjóðs hjá Rannís. Þar verður að finna allar leiðbeiningar og reglur.

   Tímalína fyrir tillögur og umsóknir á nýjan vegvísi um rannsóknainnviði
06.08.2024 Opnað fyrir tillögur á nýjan vegvísi
 12.09.2024 Frestur til að senda inn tillögur á nýjan vegvísi rennur út 
September 2024
(vika 38)
 Opnað fyrir umsóknir á nýjan vegvísi og almennar umsóknir í Innviðasjóð
 31.10.2024  Umsóknarfrestur til að senda umsóknir til Innviðsjóðs rennur út
 Janúar 2025  Úthlutun úr Innviðasjóði tilkynnt

Opnað verður fyrir innsendingar á tillögum á nýjan vegvísi í ágúst 2024 og verður opið fyrir innsendingu þeirra til 12 september 2024. Tillögur verða birtar á heimasíðu sjóðsins.

Opnað verður fyrir umsóknir á vegvísi um miðjan september 2024 og rennur umsóknarfrestur út 31. októver 2024. Úthlutun verður tilkynnt í janúar 2025. Athugið að leyfilegt er að senda inn fullgerða umsókn á nýjan vegvísi án þess að hafa áður sent inn tillögu um verkefni.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica