Stefnt að áframhaldandi velgengni Íslands í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins
Framleiðsla metanóls úr CO2 til eldsneytisnotkunar flutningaskipa. Greining á orsökum meðgöngueitrunar sem getur verið lífshættuleg fyrir barnshafandi konur og börn þeirra. Gróðursetning nýrra tegunda plantna á sjálfbæran hátt, sem nýtast sem lífeldsneyti. Þetta eru aðeins fá dæmi um rannsókna- og nýsköpunarverkefni með þátttöku íslenskra aðila sem hafa hlotið styrki úr samstarfsáætlunum Evrópusambandsins.
Ísland tók mjög virkan þátt í Horizon 2020 rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB á árunum 2014-2020. Af þeim rúmlega 1500 umsóknum um styrki, sem íslenskir aðilar tóku þátt í á þessu tímabili, hlutu um 20% þeirra styrk en það er vel yfir meðaltali árangurshlutfalls allra þátttökulanda í áætluninni sem var um 12%. Heildarfjárhæð styrkja var samtals um 20 milljarðar íslenskra króna, sem féllu í hlut fjölbreyttra íslenskra verkefna á öllum sviðum vísinda og nýsköpunar. Ef þessi tala er skoðuð út frá höfðatölu, jafngildir það því að hver Íslendingur hafi fengið meira en 50.000 krónur í sinn hlut, eingöngu úr Horizon 2020 áætluninni – sem er þrisvar sinnum meira en meðaltal Evrópusambandsríkjanna.
Þann 24. september síðastliðinn tilkynnti sameiginlega EES nefndin formlega ákvörðun um áframhaldandi þátttöku Íslands í næstu kynslóð metnaðarfullra samstarfsáætlana ESB, s.s. Horizon Europe, Erasmus+ og Creative Europe fyrir næsta sjö ára tímabil.
Nýsköpun til framtíðar
Frá og með 2021 taka nýjar samstarfsáætlanir við, þar á meðal Horizon Europe, sem er langstærsta og metnaðarfyllsta rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins til þessa, en fjármagn áætlunarinnar er ríflega 14.000 milljarðar íslenskra króna, eða 95,5 milljarðar evra. Helstu markmið Horizon Europe eru að takast á við loftslagsbreytingar, auka samkeppnishæfni og hagvöxt og styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Eitt af því sem heimsfaraldur COVID hefur kennt okkur er mikilvægi þess að fjárfesta í vísindum og nýsköpun. Faraldurinn hefur einnig reynt á getu okkar til að bregðast skjótt við með því að tengja saman þá þekkingu og sérfræðikunnáttu sem er fyrir hendi um alla Evrópu.
Fleiri tækifæri til að stunda nám erlendis
Af samstarfsáætlunum ESB er Erasmus+ líklega best þekkt á Íslandi, en hún veitir ungu fólki m.a. tækifæri til að taka hluta af námi sínu erlendis. Reyndar hefur einn af hverjum tíu Íslendingum nú tekið þátt í þessari vinsælu áætlun sem þykir einstaklega vel heppnuð, en heildarávinningur Íslands af þátttöku í Erasmus+ á tímabilinu 2014-2020 var milli 1,2 og 1,9 milljarðar íslenskra króna. Nám og þjálfun milli landa á vegum Erasmus+ hefur leitt til persónulegra tengsla og byggt upp langvarandi vináttu sem er einmitt kjarni þess farsæla sambands sem er á milli Íslands og Evrópusambandsins. Frá og með 2021 hefst nýtt tímabil Erasmus+ áætlunarinnar sem mun hafa um tvöfalt hærra fjármagn til umráða en fyrri áætlun, eða um 3.900 milljarða íslenskra króna, sem þýðir að enn fleira ungt fólk mun njóta góðs af þátttökunni.
Sameiginleg sýn
Evrópskar samstarfsáætlanir eru eins fjölbreyttar og þær eru margar, en allar byggja þær á sömu hugmyndinni; að okkur gangi betur þegar við vinnum saman. En fyrir utan Horizon Europe og Erasmus+ tekur Ísland þátt í fjölda annarra samstarfsáætlana.
Creative Europe mun áfram styðja við kvikmyndagerð og menningu og stuðla þannig að verndun evrópsks menningararfs og auka samkeppnishæfni skapandi greina. Ísland mun í fyrsta sinn taka þátt í LIFE áætluninni, sem veitir styrki til umhverfis- og loftslagsmála, og einnig í Digital Europe sem styður við þá stafrænu umbyltingu sem nú á sér stað um alla Evrópu. Ísland mun taka þátt í áætlunum eins og Single Market sem snýr að innri markaði evrópska efnahagssvæðisins og í Evrópsku geimáætluninni. Þá mætti nefna nýmæli eins og InvestEU, rescEU, og EU4Health. Einnig verður Ísland með í nýsköpunarþætti atvinnu- og félagsmála í Félagsmálasjóði Evrópu.
European Solidarity Corps veitir ungu fólki tækifæri til að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi og ýmsum samfélagsverkefnum í öðrum Evrópulöndum. Samstarf á vegum áætlunarinnar er þegar komið af stað á Íslandi og víða um land má sjá unga sjálfboðaliða á vegum hennar sem t.d. vinna við að bæta gönguleiðir á hálendinu, gróðursetja tré eða hreinsa fjörur. Samstaða og samvinna milli landa og þvert á kynslóðir er einmitt það sem mun hjálpa okkur að takast á við þær áskoranir sem framtíðin ber í skauti sér.
Samvinna við aðrar Evrópuþjóðir er einkar mikilvæg fyrir lítið samfélag eins og Ísland til að vera betur í stakk búið til að takast á við örar breytingar í þjóðfélaginu og byggja upp sterkara samfélag á grunni heimsmarkmiða um sjálfbæra þróun.
Lucie Samcová – Hall Allen er sendiherra Evrópusambandsins á íslandi. | Hallgrímur Jónasson er forstöðumaður Rannís, Rannsóknamiðstöðvar íslands. |