Starfsemi IASC skrifstofunnar á Akureyri framlengd til ársins 2026

21.4.2020

Í ljós þeirrar jákvæðu reynslu sem fengist hefur af starfsemi skrifstofu Norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC) hefur Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra samþykkt að framlengja starfsemi skrifstofunnar hjá Rannís á Akureyri um fimm ár. Starfsemi skrifstofunnar sem hefur verið starfrækt frá 2017 er því tryggð til loka árs 2026. 

Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin (International Arctic Science Committee (IASC)) er mikilvægasti samstarfsvettvangurinn fyrir opinberar stofnanir og samtök á sviði norðurslóðavísinda frá 23 ríkjum fyrir rannsóknir á norðurslóðum. Auk stjórnar þá skiptist starfsemi nefndarinnar í vinnuhópa á sviðum freðhvolfs, gufuhvolfs, hafvísinda, landvistkerfa og mann- og félagsvísinda. Auk þess starfar vinnuhópur um athuganir og vöktun á norðurslóðum ( SAON ) í samvinnu við IASC og Norðurskautsráðið. 

Íslenskir vísindamenn taka virkan þátt í starfi allra þessara hópa og eru fulltrúar Íslands þannig skipaðir: 

Nafn vinnuhóps Fulltrúar Íslands
Freðhvolf Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor, Háskóla Íslands, formaður vinnuhópsins
Gufuhvolf Guðrún Nína Petersen, veðurfræðingur, Veðurstofu Íslands
Hafvísindi Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur, Hafrannsóknastofnun
Landvistkerfi Jón S. Ólafsson, vatnalíffræðingur, Hafrannsóknastofnun
Mann- og félagsvísindi Catherine Chambers, fagstjóri, Háskólasetri Vestfjarða
SAON Jórunn Harðardóttir, rannsóknastjóri, Veðurstofu Íslands

Starf IASC felst að verulegu leyti í því að skipuleggja alþjóðlegar ráðstefnur og áherslur í rannsóknum á sviði norðurslóðavísinda. Vinna IASC hefur einnig verulega áhrif á stefnumótun einstakra aðildarríkja í norðurslóðarannsóknum og hjá alþjóðastofnunum, m.a. í rannsóknaáætlunum ESB. Fundir vinnuhópa IASC eru venjulega haldnir einu sinni á ári í Vísindaviku norðurslóða.

IASC hefur áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og gegnir mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga frá vísindasamfélaginu til ráðsins um niðurstöður rannsókna á breytingum í náttúrufari norðurslóða. IASC hefur haft frumkvæði að ýmsum athyglisverðum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum á norðurslóðum m.a. MOSAiC sem er stærsti rannsóknarleiðangur sögunnar á norðurskautssvæðinu með þátttöku sautján þjóða og um þrjátíu stofnana víðs vegar um heiminn.

Auk vísindasamtaka í norðurskautsríkjunum átta eiga aðild að nefndinni vísinda- og rannsóknarstofnanir frá Austurríki, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Indlandi, Ítalíu, Japan, Kína, Portúgal, Póllandi, Suður Kóreu, Spáni, Sviss, Tékklandi og Þýskalandi. Frá upphafi hefur Rannís átt aðild að IASC fyrir hönd Íslands.

Skrifstofa IASC er hýst hjá Rannís í Borgum, rannsókna- og nýsköpunarhúsi á lóð Háskólans á Akureyri. Starfsmenn IASC skrifstofunnar á Akureyri eru þrír:

  • Allen Pope, framkvæmdastjóri
  • Hjalti Ómar Ágústsson, skrifstofustjóri 
  • Federica Scarpa, samskiptastjóri

Þorsteinn Gunnarsson, sérfræðingur Rannís er fulltrúi Íslands í stjórn IASC.

Skrifstofa IASC á Akureyri skapar íslensku samfélagi tengsl við fremstu vísindamenn á sviði norðurslóða sem er ómetanlegt virði á tímum þessara hraðfara breytinga. Þannig stuðlar IASC skrifstofan að virkum tengslum á milli íslenskra vísindamanna og erlendra kollega þeirra.

Auk þess er IASC skrifstofan öflug viðbót við norðurslóðasamfélagið á Akureyri og má þar m.a. nefna samstarf á ýmsum sviðum við Háskólann á Akureyri, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar , skrifstofur Norðurskautsráðsins CAFF og PAME og Norðurslóðanet Íslands .









Þetta vefsvæði byggir á Eplica