Skattfrádráttur vegna R&Þ verkefna 2020 – opnað fyrir nýjar umsóknir

Umsóknarkerfið hefur verið opnað aftur fyrir nýjar umsóknir um skattfrádrátt vegna rannsókna- og þróunarverkefna með umsóknarfresti til 1. október 2020.

6.8.2020

Í kjölfar lagabreytinga vegna faraldursins hefur hlutfall og þak endurgreiðslna vegna rannsókna- og þróunarverkefna hækkað.

Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á umsóknarforminu hjá Rannís, með það að leiðarljósi að straumlínulaga umsýslukerfið og bæta upplýsingagjöf til frambúðar. Viðskiptaáætlun fyrir verkefnið sem áður þurfti að skila í viðhengi er núna orðin hluti af umsóknarforminu. Notendahandbók og tilvísanir í lög og tilheyrandi reglugerðir sem umsækjendur þurfa að kynna sér í tengslum við umsóknir hafa verið uppfærðar, þannig að auðveldara ætti að vera fyrir umsækjendur að finna þær upplýsingar sem máli skipta. Við hvetjum alla til að kynna sér hið fyrsta þessar breytingar á heimasíðu skattfrádráttar vegna R&Þ.

Við hvetjum sérstaklega þá sem sendu umsóknir um framhaldsverkefni fyrir 1. apríl sl. sem voru afturkallaðar í tengslum við lagabreytingu í maí sl. að skila inn nýjum umsóknum fyrir þessi verkefni sem fyrst, þannig að hægt verði að fara yfir þessi verkefni eins fljótt og auðið er í samræmi við lagabreytinguna. Sækja þarf um þessi verkefni núna sem verkefni með nýtt upphaf á árinu 2020. Í þessu felst möguleiki á að stokka upp í rannsókna- og þróunarverkefnum fyrirtækisins og laga þau að hugsanlega breyttum forsendum sem kunna að hafa skapast í tengslum við COVID faraldurinn.

Framangreind breyting Alþingis á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, þ.e. mál 726 um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldur kórónuveiru (https://www.althingi.is/altext/150/s/1372.html), fól m.a. í sér að hlutfall og þak endurgreiðslna vegna rannsókna- og þróunarverkefna var hækkað.

Í lögunum eiga nýsköpunarfyrirtæki, sem eru eigendur að rannsóknar- og þróunarverkefnum og hlotið hafa staðfestingu Rannís, rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2020 og 2021 (til endurgreiðslu 2021 og 2022) sem nemur 35% af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en 25% í tilviki stórra fyrirtækja. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti mun vera samtals 1.100.000.000 kr., þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu.

Sjá nánar: https://www.rannis.is/sjodir/atvinnulif/skattfradrattur/









Þetta vefsvæði byggir á Eplica