Sjálfbærnimenntun á Norðurlöndum þarfnast meiri stuðnings og þátttöku ungmenna

23.10.2024

Ný skýrsla um sjálfbærnimenntun á Norðurlöndum dregur fram þörf kennara fyrir aukin úrræði og stuðning. Mikilvægt er að virkja ungt fólk til að taka leiðandi hlutverk í sjálfbærniverkefnum og tryggja að sjálfbærni verði óaðskiljanlegur hluti menntunar framtíðarinnar.

  • Sustainable-living-mynd-med-grein

Rannís, fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar, kynna nýja skýrslu um sjálfbærnimenntun á Norðurlöndum (Sustainability Education in the Nordic Countries - SENC). Skýrslan er hluti af umfangsmiklu verkefni um Menntun til sjálfbærni sem er hluti af Sustainable Living, verkefni undir Norrænu ráðherranefndinni sem leitt er af Nordregio. Markmiðið með þessari áætlun var að skapa þekkingargrunn um stöðu sjálfbærnimenntunar í grunnmenntakerfi Norðurlanda og stuðla að nánari samþættingu sjálfbærni í kennslu.

Sérfræðingahópur skipaður sérfræðingum frá öllum Norðurlöndum og sjálfstjórnarsvæðum ásamt fulltrúum kennarafélaga og kennaranema, framkvæmdi viðamikla könnun á kennurum í sjö tungumálum. Markmiðið var að safna upplýsingum um hvernig sjálfbærnimenntun er nú þegar innleidd í grunnskóla og hvaða áskoranir eru fyrir hendi. Niðurstöðurnar sýna misjafna stöðu sjálfbærnimenntunar í löndunum, þar sem ýmsir ólíkir þættir koma fram sem krefjast frekari greiningar og umræðu.

Helstu niðurstöður skýrslunnar:

  • Sjálfbærni hefur verið samþætt að einhverju leyti í menntakerfi allra Norðurlanda, en umfangið og aðferðirnar eru mismunandi milli landa.
  • Kennarar kalla eftir frekari stuðningi og úrræðum til að efla sjálfbærnimenntun í skólum.
  • Mikilvægt er að styrkja þátttöku ungs fólks í sjálfbærniverkefnum og gera þau virka þátttakendur í framtíðinni.

Kallað eftir aukinni þátttöku ungmenna

Eitt af lykilatriðum í niðurstöðum skýrslunnar er mikilvægi þess að auka þátttöku ungmenna í sjálfbærnimenntun. Ungt fólk þarf að vera virkir þátttakendur í sjálfbærri þróun, þar sem þeir eru ekki einungis neytendur framtíðarinnar heldur einnig hvatar að nýjum og skapandi lausnum. Að gera ungt fólk að leiðandi aðilum í sjálfbærnimenntun tryggir að sjálfbær hugsun verði órjúfanlegur hluti af menntun þeirra.

Niðurstöðurnar undirstrika að skólakerfið leikur lykilhlutverk í því að undirbúa næstu kynslóð fyrir þær áskoranir sem tengjast loftslagsbreytingum, jafnrétti, og sjálfbærum lífsháttum. Skýrslan opnar einnig á mikilvægar umræður um hvernig hægt er að endurskoða og efla norræna sjónarmiðið á sjálfbærnimenntun í ljósi þessara áskorana.

Gagnagrunnur um sjálfbærni kynntur

Samfara útgáfu skýrslunnar hefur Nordregio kynnt nýjan gagnagrunn sem veitir leiðbeiningar og úrræði fyrir norræn samfélög sem varða sjálfbærni. Þar er að finna verkfæri sem hjálpa til við að innleiða sjálfbærnimenntun og ýmsar aðrar sjálfbærar aðgerðir á sviðum neyslu, menningar og jafnréttis.

Nánari upplýsingar um niðurstöður skýrslunnar og sjálfbærnilífsgrunninn má finna á hér:

Hlekkur á skýrsluna: Sustainability Education in the Nordic Countries

Hlekkur á gagnagrunn um sjálfbærni: Sustainable Living Hub









Þetta vefsvæði byggir á Eplica