Sex verkefni tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, 10. febrúar nk. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2021.
Stjórn sjóðsins hefur valið sex öndvegisverkefni en aðeins eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna. Forseti Íslands afhendir verðlaunin.
Verkefnin sem tilnefnd eru sem öndvegisverkefni eiga það sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en eru afar ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til. Þessi fjölbreytni endurspeglar ennfremur það frjóa og margbreytilega starf og nám sem háskólanemar á Íslandi og íslenskir námsmenn erlendis leggja stund á.
Verkefnin sem tilnefnd eru til verðlaunanna eru:
- Betri gjörgæslumeðferð með gagnasjá
- Kennsluefni í kynja- og hinseginfræði
- Krakkakropp
- Matjurtarækt utandyra fram á vetur
- Stelpur diffra
- Stýring ljósvörpu við rækjuveiðar
Nánar um öndvegisverkefnin:
Betri gjörgæslumeðferð með gagnasjá
Á gjörgæsludeildum Landspítalans er notast við upplýsingakerfi sem safnar gífurlegu magni gagna um sjúklinga og meðferð þeirra þar. Þetta upplýsingakerfi skortir þó aðgengileika og yfirsýn. Með auknum aðgengileika að upplýsingum og hagnýtingu á þeim aragrúa gagna sem er safnað er hægt að veita starfsfólki yfirsýn yfir álag og umfang gjörgæslumeðferðar. Slíkt bætir líka þjónustu við gjörgæslusjúklinga og tryggir aukið öryggi.
Verkefnið fólst í því að búa til gagnasjá fyrir gjörgæsludeild Landspítalans. Gagnasjáin vinnur gögnin úr upplýsingakerfinu og birtir myndrænar og tölulegar upplýsingar úr gögnunum. Með gagnasjánni má fylgjast með framvindu og gangi fjölþættrar, flókinnar og kostnaðarsamrar gjörgæslumeðferðar á kerfisbundinn hátt, leita leiða til að bæta gæði hennar, hanna inngrip og innleiða breytingar á verklagi til að bæta meðferðina. Þá má nota gagnasjána til að spá fyrir um þyngd og umfang meðferða á gjörgæsludeild og auðvelda þannig skipulag og tryggja viðunandi mönnun á deildinni.
Viðtökur gagnasjárinnar hafa verið mjög góðar og er nú verið að vinna að því að innleiða hana í tölvukerfi Landspítalans. Þá hefur gagnasjáin verið kynnt fyrir gjörgæsluráði Landspítalans sem og hugbúnaðarfyrirtæki innan heilbrigðisþjónustugeirans. Báðir aðilar hafa sýnt lausninni mikinn áhuga.
Verkefnið var unnið af Margréti Völu Þórisdóttur og Signýju Kristínu Sigurjónsdóttur, báðar með BS. í hagnýttri stærðfræði við Háskóla Íslands, og Valgerði Jónsdóttur, BS. í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Martin Ingi Sigurðsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, og Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson og Tómas Philip Rúnarsson, prófessorar við Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.
Kennsluefni í kynja- og hinseginfræði
Kynja- og hinseginfræðsla er mikilvæg á öllum skólastigum, jafnrétti er ein af grunnstoðum aðalnámskrár og kveða jafnréttislög á um að kennt sé um jafnréttis- og kynjafræði og málefni hinsegin fólks, m.a. Slík fræðsla leiði til aukins skilnings á fjölbreytileika, vinnur gegn staðalmyndum og dregur úr einelti. Þrátt fyrir aðalnámskrá og jafnréttislög er ekki til neitt heildstætt námsefni á sviði kynja- og hinsegin fræða hér á landi og sýna niðurstöður rannsókna að jafnréttisfræðslu er ábótavant í skólakerfinu hér á landi. Er þetta verkefni liður í því að bæta þar úr.
Markmið verkefnisins er að gera kennsluefni á sviði kynja- og hinseginfræða aðgengilegra bæði til þess að styðja við starfsfólk skóla og til þess að það sé líklegra að þessar fræðigreinar verði kenndar. Afurð verkefnisins er verkfærakista fyrir starfsfólk sem vinnur með börnum á leik- og grunnskóla aldri þar sem kennsluefni á sviði kynja- og hinseginfræða er flokkað eftir aldursstigi og gerð efnis.
Verkfærakistan er til þess gerð að auðvelda starfsfólki að finna áreiðanlegan efnivið og taka upp umræður um þessi mikilvægu málefni við sína nemendur, enda hefur mikið verið kallað eftir slíku. Verkfærakistan er afar aðgengileg og einfalt er að leita að og finna viðeigandi kennsluefni sem hentar hverju sinni. Hún einfaldar því kennurum verulega að uppfylla skyldur aðalnámskrár og jafnréttislaga um markvissa jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum.
Verkfærakistan er ekki eingöngu stuðningur við starfsfólk skóla og yfirlit yfir það námsefni sem aðgengilegt er, heldur varpar hún einnig ljósi á hvar skortur á námsefni í kynja- og hinseginfræðum liggur. Má því einnig nýta verkfærakistuna til að skora á stjórnvöld um að bæta úr þar sem vantar í svo til verði markvisst námsefni á sviði kynja- og hinseginfræða fyrir öll börn á öllum aldri.
Verkefnið er nú aðgengilegt öllum á vef Reykjavíkurborgar.
Bjarklind Björk Gunnarsdóttir vann verkefnið en hún var í sálfræðinámi við Háskólann í Reykjavík. Leiðbeinendur voru þær Svandís Anna Sigurðardóttir, kynjafræðingur og sérfræðingur í hinsegin málefnum og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur.
Krakkakropp (e. Kiddy Crunch)
Krakkakreistur og Krakkakropp: Íslenskur barnamatur. Verkefnið var unnið af Vöku Mar Valsdóttur, Sigrúnu Önnu Magnúsdóttur og Arnkeli Arasyni, nemum í matvælafræði við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Ólafur Reykdal verkefnastjóri hjá Matís. Kveikjan að verkefninu var stórt gat á markaði, en sem stendur er enginn tilbúinn íslenskur barnamatur fáanlegur. Á sama tíma hleypur innflutningur á erlendum barnamat árlega á hundruðum tonna. Á Íslandi er til staðar græn orka, unnin með sjálfbærum hætti, hreint vatn, framúrskarandi hráefni og hverfandi notkun varnarefna við grænmetisframleiðslu.
Því höfum við á Íslandi fulla burði til þess að framleiða góðan og heilsusamlegan barnamat fyrir börnin okkar. Hugsjón nemenda var sameiginleg að nýta reynslu sína úr námi til þess að þróa frumgerðir af íslenskum barnamat sem framleiða mætti á ábyrgan hátt með umhverfissjónarmið og hollustu í fyrirrúmi. Lýðheilsa barna er brýnt vandamál en u.þ.b. fjórðungur íslenskra barna mælist yfir kjörþyngd. Mikilvægt er því að bregðast við með hollum og hentugum lausnum fyrir barnafjölskyldur.
Þá hefur matarsóun gríðarlega mikil áhrif á loftslagsbreytingar, en um 45% grænmetis heimsins er talið fara spillis. Í samstarfi við Sölufélag garðyrkjumanna þróuðu nemendur barnamat úr m.a. grænmeti sem ýmist er of smátt, of stórt, bogið eða brotið. Slíkt grænmeti myndi ekki nýtast í hefðbundnar söluvörur en er að öðru leyti í fullkomnum gæðum og því tilvalið til framleiðslu á maukuðum og þurrkuðum barnamat. Að verkefni loknu stóðu eftir fimm frumgerðir af Krakkakreistum - hentugum barnamat í pokum og þrjár frumgerðir af Krakkakroppi - barnanasli sem bráðnar í munni.
Þá hafa nemendur í kjölfar verkefnisins nú stofnað fyrirtækið Sifmar ehf. Fyrirtækið hefur einnig hlotið fleiri styrki, nemendur tekið þátt í viðskipta-og markaðshröðlum og hefur Landsvirkjun fjárfest í fyrirtækinu. Á döfinni hjá Sifmar ehf. er áframhaldandi fjármögnunarferli svo bjóða megi upp á öruggari og umhverfisvænni framleiðslu hér á landi. Það má því með sanni segja að íslensk framleiðsla, sjálfbærni, lýðheilsa barna, spornun gegn matarsóun, jákvæð umhverfisáhrif, landbúnaður og tækniþróun séu allt málefni sem verkefnið snertir og helst í hendur við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Matjurtarækt utandyra fram á vetur
Áhersla á fjölbreytt mataræði með því að auka neyslu matjurta hefur færst í aukana. Samfélög leitast í auknum mæli við að efla fæðuöryggi sitt. Meðal annars með því að veita jákvæða upplifun og fræðslu sem stuðlar að bættri neysluhegðun og sjálfbærari þróun.
Íslendingar eru ríkir af auðlindum en gætu nýtt þær betur. Í Löngugróf sunnan Elliðaárdals er fyrirhuguð starfsemi ALDIN Biodome þar sem kjarnastarfsemin er ræktun og upplifun henni tengd. Umtalsvert affallsvatn fellur frá nærliggjandi hverfi, um 30 gráðu heitt, beint í fráveitu og síðan viðtaka.
Síðastliðið eitt og hálft ár hefur farið fram tilraun til að nýta hluta af þessu affallsvatni til að hita jarðveg og lengja þannig tímann sem ræktun er möguleg utandyra. Fjöldi tegunda matjurta hafa verið prófaðar s.s. ávaxtatré, kálplöntur, salttegundir, kryddjurtir og fl. Með samanburðarrannsóknum var ræktunarárangur skoðaður út frá skilgreindum forsendum.
Rannsóknin hefur sýnt fram á að með hitun jarðvegs er hægt að rækta nýjar tegundir utandyra og auka vöxt eða magn tiltekinna afurða margfalt. Sem dæmi var nývöxtur ávaxtatrjáa með hita í jarðveginum tvöfalt meira en sömu tré í jarðvegi án hita; jarðaberjaplöntur hófu vöxt mun fyrr og gáfu þroskuð ber einum og hálfum mánuði fyrr og klettasalat óx í allt að fjórföldu magni í beði með hita, miðað við sömu tegundir í sambanburðarbeðum.
Nemandi: Karen Rós Róbertsdóttir, nemandi á ylræktarbraut í garðyrkju við Landbúnaðarháskóla Íslands
Leiðbeinandi: Hjördís Sigurðardóttir, matvæla- og skipulagsfræðingur, og framkvæmdastjóri ALDIN Biodome.
Meðleiðbeinandi: Jón Þórir Guðmundsson, garðyrkjfræðingur með sérþekkingu í ávaxtarækt.
Sumarið 2020 voru auk Hjördísar og Jóns Þóris, þeir Unnar Víðisson og Heimir Hjartarson verkfræðingar hjá EFLU verkfræðistofu meðleiðbeinendur.
Stelpur diffra
Verkefnið fólst í þróun og uppsetningu á sumarnámsbúðum í stærðfræði fyrir stelpur. Í námsbúðunum var lögð áhersla á fræðilega þjálfun í hinum ýmsu undirstöðugreinum stærðfræðinnar og skoðað hvernig þessar greinar birtast í daglegu lífi. Námsefnið og þær kennslufræðilegu nálganir sem notast var við eru ólíkar því sem flestir nemendur hafa kynnst áður.
Markmið búðanna var að auka þátttöku stúlkna í heimi stærðfræðinnar en hlutfall kvenkyns nemenda lækkar mikið á hærri menntunarstigum. Í búðunum var lögð sérstök áhersla á sjálfstyrkingu, að skoða stærðfræði í nýju ljósi, að nota stærðfræðina sem verkfæri til að skoða samfélagið og að kynna margar kvenkyns fyrirmyndir innan stærðfræðinnar fyrir þátttakendum. Vonin er einnig að skapa samfélag fyrir stelpur með sérstakan áhuga á stærðfræði.
Verkefnið var unnið af Nönnu Kristjánsdóttur, nema í stærðfræði við HÍ, umsjónarmenn voru Anna Helga Jónsdóttir, dósent í stærðfræði við HÍ og Bjarnheiður Kristinsdóttir, aðjúnkt í stærðfræðimenntun við HÍ.
Stýring ljósvörpu við rækjuveiðar
Botnvörpur eru veiðarfæri sem mikið eru notuð á Íslandsmiðum og um heim allan til botnfisk-, rækju- og humarveiða. Þær eru dregnar með hafsbotninum sem getur valdið umtalsverðu tjóni á lífríkinu þar og eyðsla eldsneytis er mikil þar sem mikið viðnám er við hafsbotninn. Ljósvarpan frá Optitog er nýtt veiðarfæri sem svífur rétt yfir hafsbotninum og smalar fengnum í netpokann með ljósum. Með þessari aðferð helst hafsbotninn ósnertur og minna viðnám við botn leiðir til minni eyðslu eldsneytis og því minni losun gróðurhúsalofttegunda.
Hafsbotninn er hvorki flatur né sléttur og þarf ljósvarpan því að geta fylgt botninum og veitt í hallandi landslagi. Skoðaðar voru leiðir til þess að auka getu ljósvörpunnar til að vinna í hliðarhalla meðal annars með því prófa mismunandi uppsetningar á togvírum og sérstökum hæðarstýrum í straumtanki. Einnig var kannað hvernig best væri að minnka stærð stýrihylkis ljósvörpunnar og gera það meðfærilegra.
Tilraunir á veiðarfæralíkönum í straumtanki gáfu skýra sýn á hegðun ljósvörpunnar við þær aðstæður sem hún mun verða notuð við. Sýnt var fram á að með breytingum á uppsetningum á togvírum gæti ljósvarpan hallað meira og verið fljótari að snúa sér til að fylgja halla botnsins. Auk þess var sýnt fram á að lögun og staðsetning hæðarstýra hefur umtalsverð áhrif til að auka vægi þeirra. Ásamt því kom í ljós að með nýjum búnaði og þrívíddarprentuðum festingum væri hægt að minnka og létta stýrihylki ljósvörpunnar töluvert. Niðurstöður verkefnisins nýttust við prófanir á frumgerð af ljósvörpu í sjó í desember 2021 og munu nýtast í áframhaldandi prófunum.
Nemendurnir sem unnu verkefnið voru þeir Dagur Óskarsson og Kristján Orri Daðason nemendur í vélaverkfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Torfi Þórhallsson lektor við verkfræðideild við Háskólann í Reykjavík.
Verkefnið var unnið með leiðsögn Optitogs, Háskólans í Reykjavík og Hafrannsóknastofnunar. Námsmenn unnu sumarið 2021 á Nýsköpunarmiðstöð Íslands í boði Optitogs. Þar var aðgengi að verkstæði til að smíða og þrívíddarprenta líkön. Tilraunir með líkön fóru fram í straumtanki Veiðarfæraþjónustunnar í Grindavík sem veitt var endurgjaldslaus aðgangur að. Hampiðjan útvegaði einnig efni til líkanasmíðarinnar. Kunnum við öllum þessum aðilum góðar þakkir.
Nánar um Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru fyrst veitt árið 1996 og eru því nú veitt í tuttugasta og sjötta sinn. Í stjórn sjóðsins 2020-2023 sitja; Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar, Berglind Rán Ólafsdóttir, tilnefnd af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, tilnefnd af Samtökum iðnaðarins, Skúli Þór Helgason, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og David Erik Mollberg, tilnefndur af Landssamtökum íslenskra stúdenta.
Árlega velur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna um 10-15 verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Stjórn sjóðsins byggir mat sitt á verkefnum á mati fagráða sjóðsins, en þau eru fimm, sjá nánar á vefsvæði sjóðsins.
- fagráð á sviði félagsvísinda, lögfræði og menntavísinda
- fagráð á sviði lífvísinda, klínískar rannsókna og lýðheilsu
- fagráð á sviði hugvísinda og lista
- fagráð á sviði náttúru- og umhverfisvísinda
- fagráð á sviði raunvísinda og stærðfræði
- fagráð á sviði verkfræði og tæknivísinda
Eins og áður segir fer athöfnin fram á Bessastöðum 10. febrúar nk. og verður þá tilkynnt hvaða verkefni verður fyrir valinu. Á verðlaunahátíðinni verður tekið mið af þeim sóttvarnarreglum sem nú eru í gildi.