Samstarfsyfirlýsing Íslands og Grænlands undirrituð

19.10.2022

Íslands og Grænland hafa undirritað yfirlýsingu um tvíhliða samstarf. Af því tilefni efndu Rannís, Rannsóknaráð Grænlands, Norðurslóðanet Íslands og Arctic Hub, til umræðufundar á Hringborði norðurslóða í Hörpu. Á fundinum var rætt um næstu skref samstarfsins og kortlagningu áherslna á sviði rannsókna.

  • SRS_4531
    Samstarfsyfirlýsing Íslands og Grænlands undirrituð. Mynd: Stjórnarráð Íslands
  • IMG_8309_edited
  • IMG_8312_edited

Fimmtudaginn 13. október skrifuðu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands og Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands undir samstarfsyfirlýsingu um tvíhlíða samstarf Íslands og Grænlands. Með yfirlýsingunni vilja ráðherrarnir árétta vilja þeirra til að efla enn frekar tvíhliða samvinnu þjóðanna. Í yfirlýsingunni er lögð sérstök áhersla á sjö málaefnasvið; menntun og rannsóknir, menningarsamstarf, jafnréttismál, loftslagsbreytingar og líffræðilegan fjölbreytileika, fiskveiðar, viðskipti og efnahagssamstarf.

Frétt um undirritunina á vef Stjórnarráðs Íslands

Í tilefni af undirritun yfirlýsingarinnar efndu Rannís, Rannsóknaráð Grænlands, Norðurslóðanet Íslands og Arctic Hub, til umræðufundar á Hringborði norðurslóða (e. Arctic Circle Assembly) í Hörpu. Á fundinum var rætt um næstu skref samstarfsins og kortlagningu áherslna á sviði rannsókna.

Meðal þess sem fram kom í umræðunum var mikil ánægja með þá vinnu sem hefur áunnist undanfarið ár, meðal annars í með vinnustofu sem haldin var í Nuuk í ágúst síðastliðnum.

Frétt um vinnustofuna á vef Rannís

Vonast er til að á næstu misserum verði hægt að skilgreina sameiginlegar styrktaráætlanir sem myndu styðja við þróun nýrra samstarfsverkefna. Slíkt mætti meðal annars gera með styrkjum til hreyfanleika fólks milli landanna tveggja og hægt væri útbúa áætlun sem væri sambærileg því tvíhliða samstarfi sem Ísland og Noregur hafa stuðlað að undanfarin áratug og voru að endurnýja.

Frétt um endurnýjun samstarfs Íslands og Noregs á vef Rannís









Þetta vefsvæði byggir á Eplica