Rannís hlýtur jafnlaunavottun

25.2.2022

Rannís hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85. Vottunin er staðfesting á því að jafnlaunakerfi Rannís uppfylli kröfur Jafnlaunastaðalsins og með jafnlaunavottuninni hefur Rannís öðlast heimild Jafnréttisstofu að nota jafnlaunamerkið til næstu þriggja ára.

Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður tók við skírteini þessu til staðfestingar frá vottunarstofunni Icert ásamt starfsfólki Rannís sem unnið hefur að vottunarferlinu. Að mati vottunaraðila er útfærsla og framkvæmd jafnlaunakerfis Rannís með miklum ágætum, en undirbúningur að þessu ferli hófst af krafti fyrir réttu ári.

Hallgrímur sagði við þetta tilefni:

„Jafnlaunavottunin er mikilvægur áfangi og við fögnum því að jafnlaunakerfi stofnunarinnar hafi fengið jafnlaunavottun. Það er mikill vilji og metnaður stjórnenda Rannís til að nýta jafnlaunakerfið og stuðla þannig að því að gera Rannís að enn betri vinnustað. Jafnlaunakerfið er mikilvægt stjórntæki sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum sé málefnaleg og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Mikilvægt er að viðhalda því með stöðugum umbótum.“

Markmiðið með því að innleiða jafnlaunakerfi er að innleiða markvissar og faglegar aðferðir við launaákvarðanir til að útrýma kynbundnum launamun og hvers konar öðrum launamun sem ekki verður skýrður með málefnalegum hætti. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr.10/2008. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85.

Jafnréttistefna Rannís  

Jafnlaunastefna Rannís

Á myndinni hér að ofan eru, talið frá vinstri: Berglind Fanndal Káradóttir sviðsstjóri greiningar- og hugbúnaðarsviðs Rannís, Herdís Þorgrímsdóttir sviðsstjóri rekstrarsviðs Rannís, Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís, Aðalheiður Jónsdóttir sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs Rannís, Álfrún G. Guðrúnardóttir, mannauðs- og samskiptastjóri Rannís og Ágúst Hjörtur Ingþórsson sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannís.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica