Óskað eftir tilnefningum til viðurkenningar fyrir framúrskarandi vísindamiðlun

12.9.2023

Viðurkenning Rannís fyrir vísindamiðlun verður veitt á Vísindavöku 2023 sem haldin verður í Laugardalshöll laugardaginn 30. september. Viðurkenningin verður afhent við opnun Vísindavöku kl. 13:00.

Viðurkenning fyrir vísindamiðlun er veitt einstaklingi, stofnun, fyrirtæki, samtökum eða verkefni, sem þykir hafa staðið ötullega að því að miðla vísindum og fræðum til almennings á áhugaverðan hátt.

Tilnefningar má senda til Rannís í síðasta lagi 20. september næstkomandi á netfangið visindavaka@rannis.is

Tilnefningu skal fylgja haldgóður rökstuðningur og dæmi um vel heppnaða vísindamiðlun yfir síðastliðið/n ár.

Til að hljóta viðurkenningu fyrir vísindamiðlun, skal hún hafa stuðlað að bættum skilningi almennings, barna, ungmenna og fullorðinna, á vísindum og fræðum og á mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag. Einnig skal vísindamiðlunin hafa vakið athygli á starfi vísindamanna og á mikilvægi rannsókna og nýsköpunar í íslensku samfélagi.

Meðfylgjandi mynd er frá verðlaunaafhendingu árið 2022 en það ár var viðurkenningin veitt Háskóla unga fólksins. Á myndinni má sjá Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, taka við viðurkenningarskjali og blómvendi, fyrir hönd Háskóla unga fólksins, frá Ásdísi Höllu Bragadóttur, ráðuneytisstjóra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.

Fyrri handhafar viðurkenningarinnar









Þetta vefsvæði byggir á Eplica