Opið fyrir umsóknir um UK-Iceland Explorer námsstyrki 2025
UK-Iceland Explorer námsstyrkjasjóðurinn er liður í auknu samstarfi milli Íslands og Bretlands á sviði menntunar, rannsókna, nýsköpunar og geimvísinda. Opnað hefur verið fyrir umsóknir og umsóknarfrestur er 27. mars 2025 kl. 15:00.
Námsstyrkjasjóðnum er ætlað að koma til móts við þann kostnað sem hlýst vegna skólagjalda og mun hver styrkhafi fá styrk fyrir skólagjöldum sem nemur að hámarki 10.000 sterlingspundum.
Einstaklingar sem stefna á framhaldsnám til fullrar gráðu við háskóla í Bretlandi á skólaárinu 2025-2026 geta sótt um styrkinn til Rannís, sem annast umsýslu sjóðsins í samstarfi við Geimferðastofnun Bretlands og breska sendiráðið í Reykjavík.
Styrkhafar eru valdir á grundvelli námsárangurs, tengingar
náms við áhersluatriði í samstarfi Íslands og Bretlands og metnaðar í
framtíðaráformum umsækjenda. Með inngildingu að leiðarljósi er einnig tekið
tillit til ólíkra aðstæðna umsækjenda í valferlinu.
Sjóðurinn er opinn öllum
námssviðum en umsóknir sem tengjast geimvísindum og STEM greinum (vísindi,
tækni, verkfræði og stærðfræði) eru settar í sérstakan forgang þar sem
styrkurinn er fjármagnaður af Geimvísindastofnun Bretlands.
Þá eru eftirfarandi
námssvið sameiginleg forgangsatriði Íslands og Bretlands og verður tekið tillit
til þeirra í umsóknarferlinu:
- mannréttindi og jafnrétti kynjanna
- öryggismál og alþjóðasamskipti
- hnattræn heilsa
Allar nánari upplýsingar um UK-Iceland Explorer og umsóknarform má finna á síðu sjóðsins. Tekið er á móti umsóknum til 27. mars 2025 kl. 15:00 að íslenskum tíma.