Nýstárleg spænskukennsla hlýtur Evrópumerkið í tungumálum

16.12.2021

Evrópumerkið í tungumálum (European Language Label) var afhent 15. desember við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum, en það er veitt annað hver ár á Íslandi fyrir nýbreytni í tungumálanámi og tungumálakennslu. Viðurkenninguna að þessu sinni hlaut verkefnið Telecollaboration sem er samstarfsverkefni milli spænskudeildar Háskóla Íslands og Háskólans í Barcelona í umsjón Pilar Concheiro, stundakennara við HÍ. 

  • Pilar Concheiro handhafi Evrópumerksins í tungumálum 2021
    Pilar Concheiro handhafi Evrópumerksins í tungumálum 2021

Dómnefnd bárust tíu tillögur að þessu sinni og var niðurstaðan sú að verkefnið uppfylli öll markmið viðurkenningarinnar, en auk hennar fær það 300 þúsund kr. styrk til frekari þróunar.

Telecollaboration verkefnið gefur spænskunemum við Háskóla Íslands tækifæri til að læra spænsku undir handleiðslu kennaranema í Háskólanum í Barcelona auk þess sem tækifæri gefst til að þjálfa fjölmenningarleg samskipti. Samvinnunám af þessu tagi kallast rafrænt tandem-nám þar sem gert er ráð fyrir að nemar þrói og hanni tungumálanámið á eigin forsendum undir leiðsögn kennara og þannig fá nemendur raunverulega og þroskandi sýn á tungumálanám sitt. Slíkt nám má einnig flokka sem jafningjanám sem byggir á gagnkvæmum samfélagslegum, menningarlegum og listrænum hugmyndum. Þannig gefst þátttakendum tækifæri til að deila áhugamálum sínum á skapandi hátt milli landa.

Eitt aðalmarkmið verkefnisins er að nemar við HÍ fái tækifæri til að þjálfa færni sína í spænsku á áhrifaríkan hátt og í raunverulegum samskiptum við nema í Barcelona. Á móti kynnast spænskir nemar aðstæðum og lífsháttum á Íslandi. Svona samskipti gera nemum kleift að mynda sterkara sameiginlegt námsumhverfi. Markmið verkefnisins er einnig að þróa hæfni nema til að taka þátt í fjölmenningarlegum samskiptum og þróa rafræna hæfni sína. Þeir nemar sem dómnefndin ræddi við segja m.a. að þeir telji að samvinnan hafi haft veruleg áhrif á hvatningu þeirra til námsins og byggi og þrói sterkt sameiginlegt námsumhverfi sem gerir námið einstakt. Ljóst er að hér er um að ræða afar metnaðarfullt verkefni og dómnefndin telur að auðveldlega megi aðlaga verkefnið kennslu annarra tungumála á háskólastigi og jafnvel á öðrum skólastigum.

Rannís hefur umsjón með Evrópumerkinu á Íslandi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis, en viðurkenningin er hluti af Erasmus+ samstarfsáætlun ESB og er henni ætlað að beina athygli að nýstárlegum og árangursríkum verkefnum í kennslu og námi evrópskra tungumála og hvetja til þess að aðferðir sem þar er beitt nýtist sem flestum. Lögð er áhersla á að verkefnin feli í sér nýbreytni sem aðrir geti lært af.

Nánari upplýsingarum Evrópumerkið (European Language Label)









Þetta vefsvæði byggir á Eplica