Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2021

20.1.2021

Ari Kvaran, Ísól Sigurðardóttir, Sunneva Sól Ívarsdóttir og Þórdís Rögn Jónsdóttir hljóta Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2021 fyrir verkefnið Betri samskipti við sjúklinga sem bíða innlagnar og meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi.

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag 

Ari Kvaran, Sunneva Sól Ívarsdóttir og Þórdís Rögn Jónsdóttir, nemar í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og Ísól Sigurðardóttur, nemi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík hlutu verðlaunin fyrir verkefnið Betri samskipti við sjúklinga sem bíða innlagnar og meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi. Leiðbeinendur voru Guðmundur Valur Oddsson, Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson og Tómas Philip Rúnarsson, prófessorar á verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands og Valgerður Árný Rúnarsdóttir, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin.

Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn á sjúkrahúsinu Vogi aukist hratt. Vegna mikillar aðsóknar er algengt að fólk þurfi að bíða lengi eftir innlögn en lengsti biðtími einstaklings eftir meðferð árið 2019 var yfir 300 dagar. Þessi langa bið reynist skjólstæðingum erfið, sérstaklega þar sem samskipti milli SÁÁ og skjólstæðinga eru af skornum skammti. Það er því brýn þörf á að auka þjónustu við þessa skjólstæðinga.

Markmið verkefnisins var að hanna og þróa frumgerð að hugbúnaði til þess að aðstoða skjólstæðinga meðan þeir bíða eftir að komast í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi. Áhersla var lögð á að bæta samskipti við skjólstæðinga með rafrænum sjálfvirkum skilaboðum ásamt því að veita þeim greiðan aðgang að þeim úrræðum sem eru í boði, hvatningu og aðstoð í aðdraganda meðferðar sem höfðar til hvers og eins. Á tímum heimsfaraldursins hefur aldrei verið jafn mikil þörf á rafrænni lausn sem býður upp á betri og fjölbreyttari þjónustu við þennan skjólstæðingahóp.

Frumgerðin var unnin í nánu samstarfi við starfsfólk SÁÁ og einstaklinga sem hafa reynslu af því að bíða eftir innlögn. Niðurstaða verkefnisins hefur meðal annars verið kynnt fyrir verkefnastjóra áfengis- og vímuvarna hjá Embætti landlæknis sem sýndi verkefninu mikinn áhuga og sér mikil tækifæri með notkun á hugbúnaðinum. Með notkun hans eru vonir bundnar við það að hægt sé að beina skjólstæðingum í viðeigandi úrræði og koma þannig fleirum að í afeitrun, sem þurfa á henni að halda. Hugbúnaðurinn myndi því ekki einungis skila ávinningi fyrir fólk sem glímir við áfengis- og vímuefnafíkn og aðstandendur þeirra heldur samfélagið í heild.

Fimm önnur verkefni fengu sérstaka viðurkenningu:

Aukið aðgengi að hugrænni atferlismeðferð (HAM): Hugmynd að borðspili
Verkefnið var unnið af Elvu Björg Elvarsdóttur, Elvu Lísu Sveinsdóttur, Hildi Lovísu Hlynsdóttur, Söru Margréti Jóhannesdóttur og Kristínu Rós Sigurðardóttur, nemum í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Leiðbeinendur voru María Kristín Jónsdóttir, dósent við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík og Álfheiður Guðmundsdóttir, sálfræðingur hjá þjónustumiðstöð Breiðholts.

Heilaörvun með nýtingu vefþjóns
Verkefnið var unnið af þeim Bjarka Frey Sveinbjarnarsyni og Hafþóri Hákonarsyni nemendum við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Leiðbeinandi var Gylfi Þór Guðmundsson, aðjúnkt við sömu deild.

Hreinsun skólps með himnum á Íslandi
Verkefnið var unnið af Ihtisham UI Haq Shami og Sif Guðjónsdóttur, nemum í umhverfisverkfræði við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Bing Wu, prófessor í umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands.

Óróasjáin “Tremv” - Ný forritseining fyrir jarðskjálftakerfið SeisComP
Verkefnið var unnið af Bethany Vanderhoof, meistaranema í jarðskjálftafræði við Háskóla Íslands og Þórði Ágústi Karlssyni, nema í tölvunarfræði við Háskóla Íslands undir leiðsögn Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands og Bjarna K. Leifssonar, sérfræðings í rekstri og umsjón flókinna úrvinnslukerfa á Veðurstofunni.

Sálfræðileg einkenni íslenskra knattspyrnuiðkenda: Kynning og fræðsla
Verkefnið var unnið af Grími Gunnarssyni, MSc nema í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Leiðbeinendur hans voru dr. Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og forseti íþróttadeildar Háskólans í Reykjavík og Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála á Íslandi og landsliðsþjálfari A-landsliðs karla.

Allir tilnefndir styrkþegar sjóðsins fengu viðurkenningarskjal undirritað af forseta Íslands.

Verðlaunin í ár

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið áður. Verðlaunin voru fyrst veitt 1996 og eru því nú veitt í tuttugasta og sjötta sinn.

Verðlaunin í ár eru tvenns konar: Annars vegar Herring bone ullarteppi frá fyrirtækinuAlrúnu og hins vegar Living Objects stjakar eða vasar frá fyrirtækinu FólkReykjavík , hannaðir af Ólínu Rögnudóttur en þeir eru gerðir úr íslenskum steini; gabbró og blágrýti.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica