Nýr rammasamningur undirritaður um vísindasamstarfið á Kárhóli
Kínversk sendinefnd frá Heimskautastofnun Kína (Polar Research Institute of China) var á Íslandi á dögunum í tengslum við uppbyggingu Norðurljósamiðstöðvarinnar á Kárhóli í Reykjadal. Sendinefndin skoðaði aðstæður og framkvæmdir á Kárhóli og heimsótti Rannís, Raunvísindastofnun og Háskólann á Akureyri.
Af þessu tilefni var undirritaður nýr rammasamningur um vísindasamstarfið á Kárhóli milli Rannís og Heimskautastofnunarinnar. Samningurinn nær til fleiri vísindasviða á norðurslóðum en áður, s.s. veðurfræði, líffræði, vistfræði, haffræði, jöklafræði, jarðfræði, umhverfisvísinda og loftslagsbreytinga, sjávarútvegsfræði og fjarkönnunar.
Samkvæmt samningnum verður rannsóknamiðstöðin á Kárhóli fjölfagleg miðstöð um norðurslóðarannsóknir. Margar íslenskar vísindastofnanir munu eiga aðild að því samstarfi og undirritaði kínverska sendinefndin einnig samninga um vísindasamstarf við Raunvísindastofnun, Hafrannsóknastofnun, Veðurstofu Íslands og Háskólann á Akureyri. Starfsemi rannsóknamiðstöðvar á Kárhóli mun styrkja þær norðurslóðarannsóknir sem þegar eru stundaðar hér á landi og bæta við þær á sumum sviðum.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við rannsóknamiðstöðina á Kárhóli ljúki seint á þessu ári en Aurora Observatory, sem er íslensk sjálfseignarstofnun, stýrir framkvæmdum þar, samkvæmt samningum við Heimskautastofnun Kína.
Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Gunnarsson, sérfræðingur á alþjóðasviði Rannís.
Xue Ren, varaforstöðumaður Heimskautastofnunar Kína og Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís.
Kínverska sendinefndin heimsótti Norðurslóðamiðstöðina á Kárhóli. F.v. Shan Yanyan, Hu Hongqiao, Xu Ren, Yang Chunxiao og Chen Nan.
Myndavél fyrir norðurljós á þaki Norðurljósamiðstöðvarinnar.