Norrænt rannsóknarverkefni á sviði heilbrigðismála vegna Covid-19
NordForsk auglýsir eftir umsóknum um samstarfsverkefni á sviði heilbrigðismála vegna Covid-19. Umsóknarfrestur er til 16. júní nk.
Heimsfaraldur COVID-19 sem nú gengur yfir kallar á að þegar verði hafist handa við að afla þekkingar á SARS-CoV-2 veirusýkingunni og hvernig veiran getur leitt til alvarlegra fylgikvilla hjá smituðum einstaklingum og jafnvel dauða.
Alþjóðlegar rannsóknir á COVID-19 eru nú hafnar á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og í Evrópusamstarfi (ESB; Wellcome) með það að markmiði að afla nýrrar þekkingar með klínískum rannsóknum og veita opinn aðgang að rannsóknargögnum.
Í ljósi þess hafa Norðurlöndin ásamt Eistlandi og Lettlandi ákveðið að hefja samstarf um rannsóknir á heilsufarsupplýsingum sem tengjast COVID-19 undir yfirskriftinni „Nordic Health Data Research Projects on COVID-19“.
Um er að ræða samvinnuverkefni sænska rannsóknaráðsins, Akademíu Finnlands, Nýsköpunarsjóðs Danmerkur, Rannsóknaráðs Noregs, Rannsóknamiðstöð Íslands (RANNÍS), Eistneska rannsóknaráðsins, Lettneska ráðuneytisins fyrir menntun og vísindi og NordForsk.
Umsóknarfrestur er til 16. júní 2020.