Námsstyrkjum úr UK-Iceland Explorer sjóðnum úthlutað í fyrsta sinn
Fyrr á árinu var í fyrsta skipti auglýst eftir umsóknum um UK-Iceland Explorer námsstyrki, en sjóðurinn var settur á laggirnar til að styðja við samstarf milli Bretlands og Íslands á sviði háskólamenntunar og þjálfunar. Styrkjum hefur nú verið úthlutað til fjögurra Íslendinga sem hefja framhaldsnám í Bretlandi nú í haust.
Styrkhafarnir ársins heita Rakel Björt Helgadóttir, Viktor Ellingsson, Arnheiður Gróa Björnsdóttir Hafberg og Bolli Steinn Huginsson. Þau sýndu með framúrskarandi umsóknum sínum og frammistöðu í viðtölum að áform þeirra um nám í Bretlandi falla vel að markmiðum sjóðsins og eru líkleg til að hafa mikinn ávinning í för með sér, bæði persónulegan og samfélagslegan. Hver styrkur hljóðar upp á £ 10.000.
UK-Iceland Explorer námsstyrkjasjóðurinn styður við íslenska nemendur sem vilja stunda nám eða þjálfun í Bretlandi. Geimferðastofnun Bretlands, UK Space Agency, veitir styrkina í samstarfi við Rannís, breska sendiráðið í Reykjavík og íslensk yfirvöld. Styrkhafar eiga kost á launaðri starfsþjálfun við breskt fyrirtæki eða stofnun innan ramma SPIN-áætlunarinnar. Næst verður auglýst eftir umsóknum í upphafi árs 2023.
Við óskum styrkhöfunum hjartanlega til hamingju með styrkveitinguna og vonum að námsdvölin í Bretlandi verði þeim til mikils gagns og ánægju.
Á myndinni má sjá sendiherra Breta á Íslandi, Dr Bryony Mathew, ásamt þremur styrkhafanna, Arnheiði, Rakel Björt og Viktori, og þeim Aðalheiði og Rúnu frá Rannís.