Mennta- og menningarsvið þakkar frábærar móttökur á Egilsstöðum
Mennta- og menningarsvið Rannís stóð fyrir opnum kynningarfundi á Austurbrú á dögunum, þar sem Austfirðingum voru kynnt tækifæri innan evrópskra og norrænna styrkjaáætlana.
Fundurinn var vel sóttur og laðaði til sín þátttakendur úr ólíkum áttum, svo sem frá mennta- og menningarstofnunum, skólum, fyrirtækjum og æskulýðsgeiranum. Fundargestir gæddu sér á gómsætri grænmetissúpu og kynntu sér leiðir til norræns og evrópsks samstarfs. Við vonum að þetta skemmtilega samtal leiði af sér fjölbreyttar verkefnishugmyndir og hlökkum til að taka á móti fleiri umsóknum að austan.
Við sama tilefni fór fram kynning fyrir nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum á þeim fjölmörgu tækifærum sem bjóðast ungu fólki í Evrópu. Þátttakendur tóku virkan þátt og það kæmi ekki á óvart þótt einhver þeirra legði land undir fót, ef til vill sem sjálfboðaliðar, skiptinemar eða starfsnemar á vegum áætlana sviðsins.
Við þökkum starfsfólki Austurbrúar og Menntaskólans á Egilsstöðum kærlega fyrir góðan undirbúning og aðstoð meðan á heimsókninni stóð.