Landskrifstofa eTwinning leitar að fyrirmyndarverkefnum!
Landskrifstofa eTwinning leitar að frábærum eTwinning-verkefnum á öllum skólastigum til að veita öðrum kennurum innblástur. Valin verkefni verða kynnt í fréttagreinum og á samfélagsmiðlum.
Landskrifstofa eTwinning á Íslandi vill varpa ljósi á frábær eTwinning-verkefni sem hafa verið unnin í íslenskum skólum. Við leitum að dæmum frá öllum skólastigum þar sem kennarar og nemendur hafa notað eTwinning á skapandi og árangursríkan hátt til að efla alþjóðlegt samstarf og nám.
Af hverju að segja frá sínum verkefnum?
Með því að deila vel unnum verkefnum viljum við veita öðrum kennurum innblástur og sýna möguleikana sem felast í eTwinning. Við ætlum að skrifa fréttagreinar um valin verkefni, lyfta þeim fram á vef okkar og samfélagsmiðlum og veita kennurum viðurkenningu fyrir þeirra framlag til alþjóðlegs samstarfs í skólastarfi.
Hvetjum til umsóknar um National Quality Label (NQL)
Verkefnin sem verða valin til umfjöllunar eru einnig hvött til að sækja um National Quality Label (NQL), sem veitir formlega viðurkenningu fyrir vandaða verkefnavinnu í eTwinning. NQL er mikilvæg viðurkenning fyrir kennara og skóla sem vilja sýna gæði verkefna sinna og auka sýnileika í evrópsku skólasamfélagi.
Dæmi um vel unnið verkefni
Á síðasta ári var verkefnið Basta Carbo! frá Stóru-Vogaskóla valið sem eTwinning-verkefni ársins á Íslandi. Það var frábært dæmi um skapandi nálgun á umhverfismennt, þar sem nemendur unnu þvert á landamæri í samstarfi við evrópska jafnaldra sína. Slík verkefni sýna hversu mikilvæg eTwinning-samvinna getur verið fyrir nám og skólaþróun.
Sendu okkur þitt verkefni!
Ef þú hefur unnið eða þekkir til eTwinning-verkefnis sem ætti skilið að fá athygli, endilega sendu okkur línu á etwinning@rannis.is. Við munum hafa samband og kanna möguleikann á að skrifa um verkefnið!
Við hlökkum til að fá innblástur frá ykkur og lyfta fram fjölbreyttum og áhugaverðum verkefnum sem gerast í íslenskum skólum!