Nýskipaður sendiherra ESB á Íslandi heimsækir Rannís
Þann 28. september heimsótti Lucie Samcová, nýskipaður sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, skrifstofu Rannís til að fræðast um starfsemina.
Sendiherrann kynnti sér starfsemi Rannís, sem sér meðal annars um stærstu samstarfsáætlanir Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í, en þær eru Horizon 2020 rannsókna- og nýsköpunaráætlunin, Erasmus+ á sviði menntunar, æskulýðsstarfs og íþrótta, European Solitarity Corps, sjálfboðaliða- og samfélagsverkefnið og Creative Europe , kvikmynda- og menningaráætlun ESB.
Sendiherrann fékk kynningu frá starfsfólki Rannís og lagði mikla áherslu á gott og náið samstarf við stofnunina, ekki síst varðandi innleiðingu næstu kynslóðar Evrópuáætlanna, sem taka gildi um næstu áramót. Einnig var rætt um mikilvægi þróunar á sviði rannsókna og nýsköpunar á Íslandi og gagnkvæm markmið sendinefndarinnar og Rannís. Markmiðið er einmitt að veita Íslendingum frekari tækifæri á sviði menntamála, rannsókna og menningar.
Á myndinni hér að ofan eru, talið frá vinstri: Herdís Þorgrímsdóttir sviðsstjóri rekstrarsviðs Rannís, Klemens Þrastarson upplýsingafulltrúi Sendinefndar ESB, Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís, Lucie Samcová sendiherra, Aðalheiður Jónsdóttir sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs Rannís, Ágúst Hjörtur Ingþórsson sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs og Berglind Fanndal Káradóttir sviðsstjóri greiningar- og hugbúnaðarsviðs Rannís.