Heimsókn menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra

28.2.2025

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra heimsótti Rannís á dögunum og fræddist um fjölbreytta starfsemi stofnunarinnar. 

  • _RAN2804


Með í för ráðherra voru Sigrún Brynja Einarsdóttir, nýr ráðuneytisstjóri menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis, Sigríður Valgeirsdóttir, skrifstofustjóri,  Úlfar Kristinn Gíslason, sérfræðingur hjá ráðuneytinu.

Hópurinn fundaði með stjórnendum og kynnti sér sögu Rannís, vöxt og breytingarferli undanfarinna ára, auk þess sem farið var yfir bæði innlend og alþjóðleg verkefni. 

Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, lagði áherslu á þá miklu breidd sem felst í starfsemi Rannís og hið fjárhagslega umfang sem árið 2024  var um 36 milljarðar króna en einnig þá sérþekkingu sem starfsfólk Rannís býr yfir og með flutningi menningarmála undir ráðuneytið ber það ábyrgð á þremur af þeim fjórum málaflokkum sem Rannís styður við.  

Ráðherra lagði áherslu á að Rannís veiti góða þjónustu um allt land og að vinnu við endurskoðun á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, og þar á meðal lagalegum grundvelli Rannís, yrði haldið áfram. 

Þá hitti ráðherra starfsfólk Rannís í húskynnum stofnunarinnar sem er á þrem hæðum, og fékk innsýn inn í daglega starfsemi Rannís. 

Rannís er ein af undirstofnunum ráðuneytisins og gegnir því hlutverki að styðja rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu.

Mynd: f.v. Berglind Fanndal Káradóttir, sviðsstjóri greiningar- og hugbúnaðarsviðs Rannís, Álfrún G. Guðrúnardóttir, mannauðs- og samskiptastjóri Rannís, Sigrún Brynja Einarsdóttir, ráðuneytisstjóri menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis, Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, Herdís Þorgrímsdóttir, sviðsstjóri rekstrarsviðs Rannís, Sigríður Valgeirsdóttir, skrifstofustjóri stefnumörkunar og alþjóðasamskipta hjá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti, Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs Rannís, Sigurður Óli Sigurðsson, sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannís og Úlfar Kristinn Gíslason, sérfræðingur á skrifstofu stefnumörkunar og alþjóðasamskipta hjá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti.

Ljósmyndari: Davíð Fjölnir Ármannsson, kynningarfulltrúi Rannís.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica