Háskóli unga fólksins hlýtur viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun

1.10.2022

Háskóli unga fólksins hlaut viðurkenningu fyrir vísindamiðlun sem afhent var við opnun Vísindavöku Rannís laugardaginn 1. október. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, ásamt teymi Háskóla unga fólksins veitti viðurkenningunni viðtöku. Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytisstjóri háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins afhenti viðurkenninguna.

  • Vidurkenning-fyrir-visindamidlun-2022

Háskóli unga fólksins er fyrir fróðleiksfúsa og fjöruga krakka á aldrinum 12-14 ára sem vilja kynnast vísindum og fræðum með vísindafólki Háskóla Íslands en verkefnið hefur verið í gangi síðan 2004. Mörg börn koma ár eftir ár til að kynnast hinum mörgu hliðum vísindanna og fræðigreina sem kennd eru við HÍ, og hefur verkefnið stuðlað að virkri og lifandi miðlun vísinda til ungs fólks.

Háskóli unga fólksins er starfræktur í eina viku á hverju sumri og gefur krökkum í 6.-8. bekk grunnskóla tækifæri til að kynnast mismunandi fræðigreinum auk þess sem þau fá skemmtilega innsýn í hvernig er að vera í háskóla. Börnin velja sér námskeið sjálf eftir áhugasviði og smíða þannig sína eigin stundatöflu en með því að lesa um námskeiðin á vefsíðu skólans komast þau oft að nýjum og áhugaverðum fræðum sem þau vilja prófa.

Nemendurnir ungu fá kennara á heimsmælikvarða, kynnast starfi þeirra og rannsóknum. Þau sjá hvernig hugmyndir og rannsóknir vísindafólks geta þróast út í framleiðslu eða aðra hagnýtingu sem getur verið frábær nýsköpun sem stuðlar að framförum í samfélaginu. Þarna sjá þau hvernig menntun og rannsóknir nýtast í íslensku samfélagi og fá vonandi áhuga og löngun til að leggja sitt af mörkum í framtíðinni.

Mörg börn koma langt að til að sækja Háskóla unga fólksins en ekki eiga öll heimangengt. Þau börn geta samt sótt skólann þegar Háskóli unga fólksins ferðast á hverju ári um landið með Háskólalestinni.

Hugmyndafræðin bak við Háskóla unga fólksins er að opna háskólann og kynna hann fyrir komandi kynslóðum. Kynna börnin fyrir fræðum, nýsköpun og vísindum og hver veit nema starfið skili sér í því að þau ákveði að leggja fyrir sig rannsóknir, vísindastarf og nýsköpun, en það er einmitt eitt af markmiðum Vísindavökunnar, og er því Háskóli unga fólksins verðugur handhafi viðurkenningar Rannís fyrir vísindamiðlun.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica