Hækkað hlutfall og þak endurgreiðslna til nýsköpunar­fyrirtækja vegna rannsókna- og þróunarverkefna skv. breyttum lögum í maí

7.9.2020

Opið er fyrir umsóknir um skattfrádrátt vegna rannsókna- og þróunar­verkefna með umsóknarfresti til 1. október 2020.

Breyting Alþingis frá því í maí sl., á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, þ.e. mál nr. 726 um breytingu á ýmsum lögum til að mætaefnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldur kórónuveiru, fól m.a. í sér að hlutfall og þak endurgreiðslna vegna rannsókna- og þróunarverkefna var hækkað.

Nýsköpunarfyrirtæki, sem eru eigendur að rannsóknar- og þróunarverkefnum og hlotið hafa staðfestingu Rannís, eiga samkvæmt lögunum rétt á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2020 og 2021 (til endurgreiðslu 2021 og 2022) sem nemur 35% af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en 25% í tilviki stórra fyrirtækja. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti er 1.100.m. kr., þar er heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.m. kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu.

Rannís opnaði fyrir endurbætt umsóknarform 6. ágúst. Viðskiptaáætlun fyrir verkefnið sem áður þurfti að skila í viðhengi er núna orðin hluti af umsóknarforminu. Notendahandbók, tilvísanir í lög og tilheyrandi reglugerðir sem umsækjendur þurfa að kynna sér í tengslum við umsóknir hafa verið uppfærðar. Forsvarsfólk nýsköpunarfyrirtækja er hvatt til að kynna sér þessar breytingar á vefsetri Rannís.

Þau fyrirtæki sem sendu umsóknir um framhaldsverkefni fyrir 1. apríl sl. sem voru afturkallaðar í tengslum við lagabreytingu í maí sl. eru einnig minnt á að skila inn nýjum umsóknum fyrir þessi verkefni sem fyrst. Sækja þarf um þessi verkefni sem verkefni með nýtt upphaf á árinu 2020. Í þessu felst möguleiki á að stokka upp í rannsókna- og þróunarverkefnum fyrirtækisins og laga þau að hugsanlega breyttum forsendum sem kunna að hafa skapast í tengslum við COVID faraldurinn.

Sjá nánar á síðu sjóðsins









Þetta vefsvæði byggir á Eplica