Útgáfa Vegvísis um rannsóknarinnviði
Fyrsti íslenski vegvísirinn um rannsóknarinnviði var gefinn út um miðjan júlí sl. af mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samstarfi við stjórn Innviðasjóðs og Rannís.
Í þessum fyrsta vegvísi eru tilgreindir viðamiklir innviðir og innviðakjarnar sem uppfylla kröfur um að styðja við gæði í rannsóknum á Íslandi og samræmast eftirfarandi áherslum Vísinda- og tækniráðs :
- að efla uppbyggingu og rekstur rannsóknarinnviða með skýrri framtíðarsýn
- að opna aðgengi að rannsóknarinnviðum og hámarka nýtingu þeirra
- að styrkja innlent sem erlent samstarf um rannsóknarinnviði
Markmiðið með því að skilgreina slíka kjarna og skipuleggja framtíðaruppbyggingu þeirra er að stuðla að aukinni nýtingu rannsóknarinnviða og styrkja framúrskarandi rannsóknir hér á landi. Vegvísirinn kemur út á íslensku og ensku.
Gert er ráð fyrir að vegvísir um rannsóknarinnviði verði endurskoðaður reglulega og til grundvallar muni liggja áherslur stjórnvalda hvers tíma í vísinda- og tæknimálum eins og þær birtast í Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, fjármálaáætlun og fjárlögum.
Auglýst verður eftir nýjum verkefnum á uppfærðan vegvísi innan fárra ára og er vísindasamfélagið hvatt til þess að vinna áfram að auknu samstarfi um rannsóknarinnviði, jafnt innan verkefna sem nú hafa stöðu á vegvísi sem og með mótun nýrra verkefna.