Opið samráð um stefnumál og áherslur innan Horizon Europe
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins býður þeim sem áhuga hafa á rannsóknum og nýsköpun að taka þátt í opnu samráði um stefnumótun og áherslur innan Horizon Europe, næstu rannsókna- og nýsköpunaráætlunar ESB. Hægt er að senda inn álit til 18. september nk.
Horizon Europe, níunda rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og nýsköpun mun taka gildi í ársbyrjun 2021 og er til sjö ára. Áætlað er að á þeim tíma muni nærri 100 milljarðar evra renna til rannsókna og nýsköpunar. Ísland hefur tekið virkan þátt í rannsókna- og nýsköpunaráætlunum ESB allt frá gildistöku EES samningsins.
Niðurstöðurnar verða nýttar til stefnumörkunar við framkvæmd áætlunarinnar, sérstaklega annan stólpa hennar um hnattrænar áskoranir og samkeppnishæfni í iðnaði (Global Challenges and European Industrial Competitiveness).
Niðurstöðurnar verða síðan ræddar á Rannsókna- og nýsköpunardögum Evrópu sem verða haldnir 22.-24. september nk. á vefnum.
Allir sem áhuga hafa á rannsóknum og nýsköpun, stofnanir jafnt sem einstaklingar, geta tekið þátt í samráðinu. Þau sem vilja hafa áhrif á stefnumótun næstu rannsókna- og nýsköpunaráætlunar ESB, Horizon Europe eru hvött til að taka þátt.
Hægt er að taka þátt til 18. september næstkomandi.