Finnur Dellsén, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands, hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2019

5.11.2019

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs voru afhent við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi Rannís sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í dag.  

  • Handhafi-Hvatningarverdlauna-Visinda-og-taeknirads-2019

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs voru afhent við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi Rannís í dag. Finnur Dellsén, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands, hlaut viðurkenninguna að þessu sinni. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs, afhenti Finni verðlaunin.

Finnur Dellsén fæddist árið 1984. Hann lauk BA-prófi í heimspeki með ágætiseinkunn við Háskóla Íslands árið 2007 en stundaði einnig nám í stærðfræði við Háskóla Íslands og stærðfræðilegri rökfræði við Gautaborgarháskóla. Finnur lauk MA-prófi í heimspeki frá University of North Carolina í Chapel Hill í Bandaríkjunum 2011 og svo doktorsprófi frá sama skóla 2014. Að námi loknu starfaði hann meðal annars sem nýdoktor við University College Dublin á Írlandi og sem stundakennari við Háskóla Íslands. Finnur er dósent í heimspeki við Háskóla Íslands en hefur auk þess sinnt kennslu og rannsóknum við Høgskolen i Innlandet í Lillehammer í Noregi frá 2017.

Rannsóknir Finns hafa að miklu leyti snúist um hvernig við öðlumst skilning og þekkingu á heiminum, sérstaklega í vísindum og með hjálp þeirra. Hann hefur meðal annars sett fram og rökstutt þá kenningu að vísindalegar framfarir felist í því að öðlast aukinn skilning á vísindalegum fyrirbærum fremur en til dæmis aukna þekkingu. Þessi „skilningskenning“ er nú meðal fjögurra helstu kenninga heimspekinnar um eðli vísindalegra framfara. Finnur stýrir nú þriggja ára rannsóknaverkefni á þessu sviði, sem styrkt er af Rannsóknasjóði.

Finnur hefur vakið alþjóðlega athygli þrátt fyrir ungan aldur. Fyrr á þessu ári hlaut hann verðlaun hinnar norsku Holberg-stofnunar sem kennd eru við Nil Klim en þau eru veitt árlega einum norrænum fræðimanni undir 35 ára aldri fyrir framúrskarandi framlag á sviðum hugvísinda, félagsvísinda, lögfræði eða guðfræði. Í umsögn valnefndar kemur fram að Finnur standi í framlínu rannsókna á sínu sviði. Auk þess hefur hann fengið alþjóðlega verðlaun sem kennd eru við svissneska heimspekinginn Henri Lauener og veitt eru annað hvert ár einum upprennandi fræðimanni á sviði heimspekinnar.

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987, en markmiðið með þeim er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica