eTwinning fagnar 20 ára afmæli á árinu!
eTwinning er flaggskip Evrópusambandsins þegar kemur að rafrænu skólasamstarfi. Það býður kennurum og skólum öruggt netumhverfi þar sem hægt er að vinna saman og þróa bæði innlend og alþjóðleg verkefni.
Á síðustu tveimur áratugum hefur eTwinning hjálpað kennurum að byggja upp varanleg tengsl yfir landamæri og þróa samstarfsverkefni sem efla skólastarf. Árið 2025 fagnar eTwinning 20 ára afmæli sínu, og það er tilefni til að líta yfir farinn veg og helstu áfangana sem hafa mótað þetta verkefni.
Ísland hefur verið með frá upphafi
Ísland hefur tekið þátt í eTwinning frá upphafi verkefnisins árið 2005 og hefur íslenskt skólasamfélag notið góðs af því að tengjast öðrum skólum víðsvegar um Evrópu. Frá upphafi hefur eTwinning verið rekið samhliða Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, en árið 2014 flutti áætlunin og öll hennar stoðverkefni yfir til Rannís, þar sem þau hafa verið starfrækt síðan.
Í gegnum árin hafa íslenskir kennarar og nemendur tekið virkan þátt í fjölbreyttum verkefnum sem stuðla að alþjóðlegri samvinnu og nýsköpun í skólastarfi. Í dag eru fjölmargir skólar á Íslandi virkir þátttakendur í eTwinning og hafa hlotið gæðaviðurkenningar fyrir framúrskarandi verkefni.
Viðburðir í tilefni afmælisins
Á árinu 2025 verða fjölmargir viðburðir haldnir á vegum Landskrifstofu eTwinning á Íslandi, sendiherra eTwinning um allt land og eTwinning skólanna. Viðburðirnir munu vekja athygli á mikilvægi eTwinning í íslenskri menntun og hvetja fleiri skóla og kennara til þátttöku. Við munum auglýsa þessa viðburði síðar.
F.v: Eydís Inga Valsdóttir, verkefnastjóri eTwinning á Íslandi, Guðmundur Ingi Markússon, verkefnastjóri eTwinning á Íslandi 2006-2018, Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri Mennta- og menningarsviðs Rannís og Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís.
Til að hefja fögnuðinn bauð Landskrifstofa eTwinning upp á tertu í tilefni afmælisins, sem tákn um þá samstöðu og gleði sem eTwinning hefur fært íslenska skólasamfélaginu undanfarin 20 ár.
Við hlökkum til að taka þátt í fleiri viðburðum með ykkur á árinu!
Horft til framtíðar
Á síðustu 20 árum hefur eTwinning tengt saman 1,2 milljónir kennara frá 295.000 skólum í 46 löndum, sem hafa unnið að yfir 160.000 verkefnum með þátttöku meira en 3 milljón nemenda. En eTwinning snýst ekki bara um tölur – heldur um vináttutengsl, nýjar kennsluaðferðir og sívaxandi evrópskt samfélag kennara sem styðja hvort annað og deila þekkingu.
Frá árinu 2014 hefur eTwinning verið styrkt af Erasmus+ áætluninni, sem tryggir áframhaldandi tækifæri til að samþætta eTwinning við önnur evrópsk menntaverkefni.
Fögnum saman!
eTwinning á Íslandi mun fagna þessum merka áfanga með fjölbreyttum viðburðum og verkefnum á árinu 2025. Tökum höndum saman, tengjumst og veitum innblástur til næstu kynslóða kennara!
Vertu með í fagnaðinum með því að deila þínum eTwinning minningum á samfélagsmiðlum með kassamerkinu #eTwinning20.