Erna Sif Arnardóttir og Martin Ingi Sigurðsson hljóta Hvatningar­verðlaun Vísinda- og tækniráðs 2021

9.9.2021

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs voru afhent við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi Rannís í dag. Dr. Erna Sif Arnardóttir, lektor við verkfræði- og tölvunarfræðideildir Háskólans í Reykjavík og Dr. Martin Ingi Sigurðsson, prófessor í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Háskóla Íslands og yfirlæknir á sama sviði við Landspítala hlutu viðurkenninguna að þessu sinni. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs, afhenti verðlaunin.

  • Erna Sif Arnardóttir og Martin Ingi Sigurðsson hljóta Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2021

Martin Ingi Sigurðsson er fæddur árið 1982. Hann lauk kandidatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2009 en samhliða læknanámi lagði hann stund á doktorsnám í erfðafræði við Háskóla Íslands sem hann lauk með doktorsvörn árið 2011. Hann sérhæfði sig í svæfingalækningum við læknadeild Harvard háskóla og í kjölfarið lauk hann undirsérhæfingu í gjörgæslulækningum og svæfingum við hjarta- og lungnaskurðaðgerðir við Duke-háskóla í Norður-Karolínu. Hann tók við starfi prófessors við Háskóla Íslands árið 2019 samhliða stöðu yfirlæknis á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala. Martin Ingi hefur verið mjög virkur í rannsóknum hérlendis og erlendis undanfarin 15 ár. Árið 2011 var hann valinn ungur vísindamaður Landspítala en auk þess hefur hann hlotið fjölda viðurkenninga m.a. fyrir framlag sitt á alþjóðlegum vísindaráðstefnum.

Erna Sif Arnardóttir er fædd árið 1981. Hún útskrifaðist með B.S. gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands árið 2005, meistaragráðu í líf- og læknavísindum árið 2007 og varði doktorsverkefni sitt í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands árið 2013. Doktorsverkefnið var að hluta unnið við University of Pennsylvania í Bandaríkjunum. Erna Sif hefur verið leiðandi vísindamaður á sviði svefnrannsókna hér á landi, m.a. sem nýdoktor og aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands, sem forstöðunáttúrufræðingur við Svefndeild við Landspítala, sem klínískur ráðgjafi hjá fyrirtækinu Nox Medical og sem rannsóknasérfræðingur við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Árið 2020 setti hún á fót þverfaglegt Svefnrannsóknasetur við Háskólann í Reykjavík sem hún veitir forstöðu. Erna Sif leiðir jafnframt rannsókna- og þróunarverkefnið Svefnbyltingin en verkefnið hlaut tveggja og hálfs milljarða króna styrk frá rammaáætlun Evrópusambandsins á árinu 2020, en það er einn hæsti styrkur sem veittur hefur verið til vísindarannsókna hérlendis. Erna Sif hefur áður hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín á sviði svefnrannsókna. Hún var valin ungur vísindamaður Landspítala árið 2009 og hlaut hvatningarstyrk úr Vísindasjóði Landspítala árið 2011, auk viðurkenninga fyrir framlag sitt á alþjóðlegum vettvangi þar sem hún meðal annars hefur ítrekað haldið boðsfyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum.

Fyrri handhafar Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráð

Upptaka frá Rannsóknaþingi 2021


 Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindafólki sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987, en markmiðið með þeim er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica